KSÍ hefur nú útskrifað fyrstu UEFA A markmannsþjálfarana hér á landi en á laugardaginn hlutu átta þjálfarar þann heiður að útskrifast með hæstu þjálfaragráðu sem UEFA veitir markmannsþjálfurum. Breiðablik á fulltrúa í þessum hópi en Ólafur Pétursson lauk þjálfaragráðunni með glæsibrag.

Ólafur Pétursson hefur verið markmannsþjálfari hjá Blikum síðan árið 2005. Á þessum 13 árum hefur Ólafur þjálfað markmenn yngri flokka félagsins ásamt því að vera markmannsþjálfari meistaraflokks karla frá árinu 2008 og kvenna frá árinu 2012. Frá haustinu 2014 hefur Ólafur einnig verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. Á þessum árum hafa Blikar átt markmenn í A-landsliðum karla og kvenna og orðið Íslands- og bikarmeistarar.

Auk þess að þjálfa hjá Blikum er Ólafur markmannsþjálfari A-landsliðs kvenna.

Við óskum Ólafi til hamingju með áfangann.