Grein eftir Jón Finnbogason formann Íþróttaráðs Kópavogs sem birtist í Vogum.
Mikil umræða hefur farið fram á undanförnu ári um árangur okkar landsliða í íþróttum þrátt fyrir fámenna þjóð.  Margir ólíkir þættir leika örugglega stórt hlutverk þegar metið er hvers vegna árangurinn er jafn góður og raun ber vitni.  Vinnusemi okkar íþróttafólks er að gjarnan nefnt. Hlutverk foreldra er stórt og er jafnvel talið skipta sköpum.  Innra starf íþróttafélaganna er einnig nefnt til sögunnar.  Einstaklega góð aðstaða til íþróttaiðkunar á íslandi er svo að jafnaði oft nefnt að lokum.
Fáir hafa velt jafn mikið fyrir sér hvers vegna Ísland nær jafn góðum árangri í íþróttum og Viðar Halldórsson. Hann gaf nýlega út bókina „Sport in Iceland, how small nations achieve international success“ en fyrir nokkrum árum var Viðar íþróttastjóri hjá Íþróttafélaginu Gerplu í Kópavogi og þekkir því vel til þess starfs sem þar fer fram.  Það verður að hrósa Viðari fyrir hans rannsóknir í þessum efnum.
Á 20 mánaða tímabili frá janúar 2016 og fram í september 2017 voru 5 stórmót í knattspyrnu, körfubolta og handbolta þar sem Ísland er meðal keppenda. Því til viðbótar verður karlalandsliðið í fótbolta á HM nú í sumar. Viðar hefur nefnt að árangurinn sem við höfum séð að undanförnu sé meðal annars vegna þessa að við höfum ákveðið sambland af áhugamennsku, þar sem vinir spila saman fyrir þjóðina, mikil fórnfýsi meðal keppenda en á sama tíma er aukin fagmennska til staðar.  Ég er sammála Viðari en ég skil það þannig að með tilvísun til aukinnar fagmennsku þá vísar Viðar bæði til innra starfs félaga og þeirrar aðstöðu sem er til staðar.
Kópavogur hefur átt fjölda fulltrúa í landsliðsverkefnum á undaförnu.  Sögulega hefur unglingastarfið verið mjög sterkt hér í Kópavogi. Sem dæmi má nefna að frá 2008 til 2017 átti Breiðablik 14% allra drengja og 15% stúlkna í unglingalandsliðum í U17 í knattspyrnu. Næstu lið voru langt á eftir Breiðablik í þessum efnum.  Það er því ljóst að Breiðablik hefur átt langflesta fulltrúa allra félaga í unglingalandsliðum í knattspyrnu á undanförnum árum.  Framtíðin ætti því að vera björt í knattspyrnu í Kópavogi.
Ég tel hins vegar að blikur séu á lofti.  Iðkendur Breiðabliks í knattspyrnu eru í dag um 1.600 en þeir voru um 600 þegar Fífan var byggð á sínum tíma en þá hafði HK einnig aðstöðu í húsinu.  Vegna þéttingar byggðar í næsta nágrenni við Breiðablik áætlar félagið að fjöldi iðkenda muni innan fárra ára rjúfa 2.000 iðkenda múrinn.  Félagið hefur gert grein fyrir að nú þegar geti félagið ekki veitt þjónustu af sambærilegum gæðum og það gat áður gert sem skilaði félaginu í topp sæti yfir fulltrúa í unglingalandsliðum í knattspyrnu.  Þá hefur félagið kynnt að með því að bæta við upplýstum og upphituðum gervigrasvelli við hlið Fífunnar verði hægt að snúa af þeirri braut sem nú blasir við.  Ég tel að nálgun félagsins sé skynsamleg.
Árangur í íþróttum grundvallast ekki síst á innviðum. Innviðir í formi mannvirkja sem sveitarfélögin hafa byggt upp af miklum myndarskap og innviðum sem félögin hafa byggt upp í sínu innra starfi hafa haldist að. Nú er hins vegar svo komið í knattspyrnu að rof hefur myndast hjá Breiðablik. Innviðir í formi aðstöðu hjá Breiðablik hefur ekki haldist að við innra starf félagsins eins og félagið hefur lýst. Ef við í Kópavogi hugsum ekki til langs tíma þá er líklegt að það forskot sem við höfum haft á undanförnum árum tapist.  Ég tel því mikilvægt að bregðast nú þegar við og skoða tillögur Breiðabliks mjög vandlega.