Bryndís Hanna Hreinsdóttir hefur samið um að spila með Breiðablik í Dominos deildinni á komandi keppnistímabili og mun því færa sig um set yfir heiðina, úr Garðabæ í Kópavoginn.

Bryndís sem er fædd 1990 er uppalin á Bíldudal og gerði garðinn fyrst frægan með Herði Patreksfirði, þaðan sem hún færði sig yfir til Hauka, en hún hefur spilað með Stjörnunni síðan árið 2012.
Bryndís spilar í stöðu bakvarðar og er mjög góður varnarmaður. Hún var með 5.5 stig, 3.6 fráköst og 1.8 stoðsendingu í leik á síðsta tímabili fyrir Stjörnuna. Bryndís lék okkur Blika grátt þegar Stjarnan og Breiðablik mættust í leik snemma á þessu ári þar sem Bryndís skoraði 13 stig tók 9 fráköst og gaf 2 stoðsendingar, ekki amalegt að geta nýtt sér þessa starfskrafta.

Við náðum tali af Bryndísi og hafi hún þetta að segja um vistaskiptin:

„Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og lýst vel á starfið hjá Breiðabliki. Mér fannst vera komin tími á breytingu hjá mér og tel ég þessi skipti vera hárrétt skref fyrir mig. Eins finnst mér bæði hópurinn og þjálfarinn vera mjög spennandi og ég hlakka mikið til samstarfsins.“

Margrét þjálfari hafði þetta að segja um komu Bryndísar:

„Það er frábært að fá Bryndísi yfir til okkar, en hún býr yfir reynslu sem mun nýtast okkur vel. Hennar spilamennska passar vel inn í hraðan leik sem verður spilaður. Hún er ávallt í botni hvort sem það er í vörn eða sókn. Það er karakter í þessari stelpu og hún er frábær liðsmaður sem kemur til með að styrkja liðið. Hún er einnig vel menntuð í íþróttfræðum sem hópurinn mun njóta góðs af“

Við bjóðum Bryndísi hjartanlega velkomna í Breiðablik.