Breiðablik eignaðist í lok júní Íslandsmeistara bæði í karlaflokki og kvennaflokki í ólympískri þríþraut sem fram fór á Laugarvatni. Rannveig Guicharnaud og Sigurður Örn Ragnarsson urðu meistarar og óskum við þeim til hamingju með glæsilegan árangur.
Blikakarlar tóku þrjú efstu sætin í heildarkeppninni. Rúnar Örn Ágústsson varð annar á eftir Sigurði og Hákon Hrafn Sigurðsson þriðji. Ofangreind unnu jafnframt sína aldursflokka. Birna Íris Jónsdóttir varð þriðja í sínum aldursflokki kvenna og Óskar Örn Jónsson sigraði 50 plús flokkinn. Stefán Örn Magnússon varð þriðji í byrjendaflokki.
Stytta þurfti sundlegginn úr 1500 metrum í 750 metra vegna lágs hitastigs vatnsins. Að þessu sinni var hjólað upp Lyngdalsheiðina að Bragabót, í stað hefðbundins hjólaleggs í átt að Svínavatni en á þeim vegi standa yfir framkvæmdir. Á hjólaleggnum voru teknar tvær lúppur eða samtals 40 km. Að lokum voru hlaupnir 10 km á Laugarvatni. Kuldinn sat nokkuð í keppendum eftir sundlegg en allir keppendur þurfti að nota yfirhafnir á hjólalegg enda ekkert of hlýtt á heiðinni, en þó rigndi ekki. Ægir3 stóð að keppninni sem fyrr og var skipulag til fyrirmyndar. Röggsamir dómarar voru þau Jón Oddur Guðmundsson og Margrét J. Magnúsdóttir.