Skíðablikinn, Agla Jóna Sigurðardóttir sem hefur æft skíði frá 5 ára aldri með Breiðablik flutti ein til Ítalíu nú í lok ágúst og hyggst vera þar og á fleiri stöðum í Evrópu næstu sjö mánuði til að æfa og keppa á skíðum.

Agla Jóna æfir með klúbbi á Ítalíu sem heitir Kronplatz, þessi klúbbur er staðsettur í Ölpunum og með aðsetur í bæ á Ítaliu sem heitir Monguelfo. Klúbburinn ferðast um alla Evrópu allt árið um kring til að æfa og líka til að keppa á alþjóðlegum FIS mótum.

Agla Jóna útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands í maí síðastliðnum og vann í reiðhjólaversluninni Erninum í allt sumar til að safna fyrir þessu ævintýri.

Skíðadeild Breiðabliks er ákaflega stolt af Öglu Jónu og óskar henni góðs gengis og mikillar gleði með þetta brautryðjandaverkefni með von um að þetta opni dyr og tækifæri fyrir fleiri íslenska skíðamenn í framtíðinni.