Guðmundur Jóhann Jónsson ólst upp í  Kópavogi og varð strax frá unga aldri mikill Bliki. Hann byrjaði ungur að æfa knattspyrnu en fljótlega tók handknattleikurinn við.

Hann æfði handbolta upp alla yngri flokka og varð meðal annars Bikarmeistari með 2.flokki Breiðabliks.  Eftir stúdentspróf hélt Guðmundur til náms til Bandaríkjanna og lagði hann þá boltaskóna á hilluna.

 Guðmundur mætti hins vegar alltaf á alla leiki hjá meistaraflokknum í knattspyrnu á sumrin og fylgdi liðinu nánast hvert á land sem var. Þetta hefur hann gert í rúmlega 35 ár og eru þeir ekki margir leikirnir sem Guðmundur hefur misst af.

 Þegar hann var alkominn heim frá námi var hann beðinn að taka sér sæti í stjórn knattspyrnudeildar sem hann og gerði. Árið 1993 tók hann þátt í því að stofna Blikaklúbbinn, stuðningsmannaklúbb knattspyrnudeildar, og hefur verið meðlimur síðan.  Hann átti sæti í stjórn klúbbsins um nokkurra ára skeið m.a. sem gjaldkeri.

 Guðmundur hefur ætíð verið reiðubúinn að aðstoða við starfsemi deildarinnar. Undanfarin ár hefur fyrirtækið sem hann veitir forstöðu, Vörður tryggingar, verið aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar og hefur verið gott að eiga Guðmund Jóhann þar sem hauk í horni.

Guðmundur er sannur Gullbliki