Þér er boðið í afmæli Breiðabliks

Smelltu hér til þess að sjá afmælisdagskránna

Smelltu hér til þess að sjá Facebook viðburð fyrir afmælið

 

Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað í Kópavogi þann 12. febrúar 1950.  Félagið fagnar því 70 ára afmæli um þessar mundir.  Félagsmenn ætla að fagna stórafmælinu með göngu um söguslóðir Breiðabliks sunnudaginn 16. febrúar. Að henni lokinni verður samkoma í íþróttahúsinu Smáranum.

Saga Breiðabliks er samofin sögu Kópavogs.  Árið 1948 er Kópavogshreppur stofnaður og árið 1955 fær Kópavogur kaupstaðaréttindi.  Fyrsti formaður Breiðabliks var kosinn Grímur Norðdahl. Á vordögum 1950 fær Breiðablik aðild að Ungmennasambandi Kjalarnessþings (UMSK) og hefur síðan þá verið ein af meginstoðum þess.  Mikill fjöldi Breiðabliksmanna og kvenna hefur keppt undir merkjum UMSK á mótum Ungmennafélagshreyfingarinnar og náð þar góðum árangri.

Breiðablik hefur vaxið og dafnað á hverju ári og er það nú stærsta íþróttafélag landsins.  Innan félagsins starfa 11 deildir og eru iðkendur rúmlega 2.000. Þau skipta tugþúsundum ungmennin sem fengið hafa íþróttalegt uppeldi sitt hjá félaginu. Eins og flestir þekkja vel sem hafa stundað íþróttir í æsku undir þaki ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar þá njóta þeir góðs af því í daglegu lífi sínu fram á efri ár.  Ástæðan fyrir því er ekki síst sú að mikilvægt forvarnargildi felst í íþróttaiðkun og hefur Breiðablik þar verið í fararbroddi.

Árangur Breiðabliks hefur verið glæsilegur, flestar deildir félagsins geta státað af Íslandsmeisturum og Íslandsmetum.  Ferill margra íþróttamanna sem gert hafa garðinn frægan erlendis hefur byrjað hjá Breiðabliki.  Félagið er stolt af þeim iðkendum sem hafa látið drauminn rætast og gert íþrótt sína að atvinnu erlendis, enda er það markmið deilda félagsins að hjálpa sem flestum til að stíga það skref.

Þessi mikli og góði árangur er þó ekki eingöngu félaginu einu að þakka.  Mikill fjöldi sjálfboðaliða leggur sitt að mörkum til að til að styðja við starfið  og gera þannig iðkendum sem ætla sér langt kleift að reyna að láta drauma sína verða að veruleika.  Félag með jafn viðamikla starfsemi og Breiðablik þarf á miklum fjölda sjálfboðaliða að halda til að hægt sé halda úti öflugu starfi.  Mót og kappleikir þarfnast margra handa svo allt fari snuðrulaust fram.  Þá má ekki heldur gleyma öllum þeim fjölda stjórnarmanna í deildum félagsins sem og starfsmönnum þess sem bera hita og þunga af starfinu öllu.

Stuðningur Kópavogsbæjar er líka Breiðabliki ómetanlegur.  Kópavogur hefur byggt upp aðstöðu í bænum sem er í fremstu röð hérlendis og fyrirmynd annarra sveitarfélaga.  Vissulega er félagið kröfuhart og sækist ávallt eftir meiri og betri mannvirkjum og aðstöðu. En samstarfið hefur verið gott og mikilvægt fyrir félagið að vita af traustum bakhjarli eins og Kópavogsbæ.

Starf íþróttafélaga er i stöðugri þróun og tekur mark af þeim breytingum sem verða í samfélaginu á hverjum tíma.  Jafnframt hafa kröfur til íþróttafélaga aukist.  Gerðar eru meiri kröfur til menntunar þjálfara, fjölda æfingatíma, áhalda og aðstöðu og svo mætti lengi telja. Einnig eru gerða auknar kröfur til skrifstofu félaganna um skýrslugerð og utanumhald starfseminnar.

Nú er svo komið að íþróttafélög sinna öllum aldurshópum. Í því sambandi má benda á samstarf Kópavogsbæjar, UMSK og stóru íþróttafélaganna í Kópavogi um heilsueflingu eldri borgara sem ýtt verður úr vör í haust.  Þetta er miklvægur þáttur í þjónustu við íbúa Kópavogs sem Breiðablik er stolt af að vera þátttakandi í.

Á þessum 70 árum sem liðin eru frá stofnun Breiðabliks hefur margt á daga þess drifið.  Félagið hefur átt margar gleðistundir þar sem góðum árangri er fagnað.  En fyrst og fremst er þó félagið mikilvægur hluti af samfélaginu sem gefur íbúum á öllum aldri kost á að iðka íþrótt sína við góðar aðstæður undir faglegri leiðsögn.

Breiðablik hvetur alla Kópavogsbúa til að koma í Smárann sunnudaginn 16. Febrúar, fagna afmælinu saman og kynna sér hvað Breiðablik hefur upp á að bjóða.