Hjólreiðahelgi Greifans fór fram á Akureyri og í nágrenni um helgina. Keppt var í ýmsum greinum hjólreiða og m.a. fór Íslandsmeistaramótið í fjallahjólreiðum fram í Kjarnaskógi. Ingvar Ómarsson sigraði þá keppni eftir harða baráttu við Hafstein Ægi  Geirsson. Ingvar varð þar með Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum 7. árið í röð og í 8. skipti samtals en hann varð fyrst Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum árið 2012. Magnað afrek hjá Ingvari og það sem gerir það enn merkilegra er að Ingvar hafði unnið 3. stigamót í tímatöku tveimur kvöldum áður og 3. stigamót í hópstarti kvöldið áður sem endaði með erfiðu klifri upp í Hlíðarfjall. Ingvar tryggði sér jafnframt stigameistaratitil 2020 í hópstarti.
Natalía Erla Cassata átti líka góða helgi á Akureyri. Hún varð Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum í unglingaflokki 17-18 ára. Kvöldið áður hafði hún einnig unnið unglingaflokkinn í hópstarti í umræddu stigamóti. Hún náði svo 2. sæti í tímatökunni á miðvikudagskvöldið.
Fyrstu Íslandsmeistaratitlar sumarsins komnir í hús hjá Hjólreiðadeild Breiðabliks og í fyrsta skipti sem þessi unga deild fær Íslandsmeistara í unglingaflokki. Til hamingju!