fbpx

Aðstaða frjálsíþróttadeildar

Frjálsíþróttadeild Breiðabliks er með aðstöðu sína í Kópavogsdal. Það er mjög fallegt og friðsælt svæði með mikið af grænum svæðum í kring. Æfingar eru í Smáranum og Fífunni á veturna og á Kópavogsvelli á sumrin.

Fífan

Í Fífunni er góð aðstaða til æfinga yfir veturinn. Það eru fjórar 60m brautir og fjórar 100m brautir. Það er sandgryfja fyrir langstökk og þrístökk. Síðan er kastnet þar sem hægt er að æfa allar kastgreinar nema spjótkast. Það er hástökks og stangarstökks aðstaða líka. Þegar gervigrasið er laust þá er það kjörin staður til taka spretti á til að minnka álagið á líkamann.

Kópavogsvöllur

• 6 brautir
• 400m hringur
• Merkingar fyrir allar skráðar vegalengdir
• Langstökksgryfja fyrir báðar vindáttir
• Stangastökksaðstaða í báðar áttir

Lyftingaklefarnir

Það eru 3 lyftingarklefar á svæðinu
1. Leyniklefinn í Fífunni er með aðstöðu fyrir ólympískar lyftingar. Iðkendur hafa eytt miklum tíma í að gera klefann flottan meðal annars með því að þrífa hann reglulega, byggðu lyftingarpall og máluðu hann. Þar hanga listar með bestu árangrum Blika sem hvatning og mynd af Arnold Schwarzenegger sem starir á mann þegar maður tekur hnébeygju.
2. Klefinn í Smáranum er með 4 palla til að taka ólympískar lyftingar. Síðan eru minni lóð fyrir allskyns æfingar. Það er nóg af speglum í þessum klefa  Eftir góða æfingu er vinsælt að kíkja síðan í pottinn og gufuna í herberginu við hliðinná.
3. Camelot í stúkunni er flottasta lyftingaraðstaðan í félaginu. Þar er hægt að taka lyftingaræfingar í samráði við Kraftlyftingadeild Breiðabliks sem að æfir þar almennt.

Æfingasvæðið í Skotmóum

Sumarið 2020 var glæsilegt nýtt æfingasvæði Frjálsíþróttadeildar í Skotmóum tekið í notkun. Svæðið er á bakvið stýkuna á Kópavogsvelli. Þar er nú 80m hlaupabraut með langstökksgryfju, spjótkastsatrenu og tartanlögðu svæði fyrir hástökk. Auk þess er þar nýtt og glæislegt kastbúr og tveir kasthringir.

Búnings- og salernisaðstaða

Í Smáranum eru nóg af búningsklefum til að skipta um föt í og fara í sturtu. Starfsfólkið í afgreiðslunni veitir upplýsingar um hvaða klefa er í lagi að nota. Á efri hæð Smárans er hægt að fara í sturtu og svo í heita pottinn.

Umgengni um Kópavogsvöll

Allir þurfa að fara eftir reglum vallarins:

• Það er bannað að labba yfir grasið á fótboltavellinum.
• Ekki skilja eftir rusl á vellinum.
• Bera virðingu fyrir vallarstarfsmönnum.
• Ganga frá áhöldum eftir sig.
• Bera tillit til þess að á sumum dögum lokar völlurinn fyrr vegna leikja.