fbpx

Æfingatafla – Hlaupahópur

Æfingar 2023-2024
Mánudagar kl. 17:30, frá Smáranum (hittumst í anddyrinu)
Miðvikudagar kl. 17:30, frá Smáranum
Fimmtudagar kl. 17:30, frá Smáranum (þjálfaralaus æfing) – mögulega styrktaræfing í Fífunni
Laugardagur kl. 9:00, frá Sundlaug Kópavogs, nema annað sé ákveðið.

Við erum dugleg að ræða og ákveða spennandi hlaupaleiðir á Facebooksíðu hópsins.

Hlaupahópur Breiðabliks var stofnaður í apríl 2013 og er í dag hluti af Almenningsíþróttadeild Breiðabliks. Veturinn 2014/2015 sameinuðust tveir öflugir hlaupahópar í Kópavoginum, Hlaupahópur Breiðabliks annarsvegar og Bíddu aðeins hins vegar. Samstarfið var afbragðs gott og hlupu þeir saman undir nafni Þríkó um tíma. Vorið 2017 ákvað hópurinn að taka upp nafn Hlaupahóps Breiðabliks á ný og hleypur hópurinn undir því nafni í dag. Hlaupahópur Breiðabliks er sívaxandi og alltaf eru ný andlit að bætast við hópinn.

Félagsstarf Hlaupahóps Breiðabliks
Mjög öflugt félagsstarf er í Hlaupahóp Breiðabliks, hvort sem er um að ræða smærri eða stærri viðburði. Sérstök skemmtinefnd sér um að skipuleggja árshátíð hópsins sem haldin er ár hvert. Ferðanefnd heldur utan um utanlandsferðir hópsins en reynt hefur verið að fara árlega í maraþonferð erlendis (þar sem fjölbreyttar vegalengdir eru í boði). Svo eru Pálínuboð Hlaupahóps Breiðabliks haldin reglulega og vekja alltaf jafn mikla lukku. Kakóhlaup í desember, kirkjuhlaup, Gamlárshlaup með búningaþema, kaffihúsaferðir eru bara brot af félagsstarfi Hlaupahópsins.+

Allir velkomnir
Það eru allir velkomnir í Hlaupahóp Breiðabliks, hvort sem er byrjandi í hlaupum eða “einhleypur” (vanur hlaupari sem hleypur oftast einn). Við vitum að það getur verið erfitt að stíga skrefið inn í nýjan ókunnugan hóp en munum einnig að við höfum öll tekið það skref og enginn séð eftir því.