fbpx

Lög og reglur Breiðabliks

Lög Breiðabliks

Nafn

  1. grein

Félagið heitir Breiðablik og er ungmennafélag.  Heimili félagsins og varnarþing er í Kópavogi.

Markmið

  1. grein ********

Tilgangur félagsins er að skapa félagsmönnum sínum aðstöðu og tækifæri til að iðka íþróttir og hvers konar félags- og tómstunda­starfsemi. Jafnframt að efla samstöðu og samkennd bæjarbúa með þátttöku í starfi félagsins.

Félagar

  1. grein

Félagi telst hver sá sem þess óskar eða tekur þátt í starfi félagsins.  Skal félagi skráður í eina eða fleiri deildir sem starfræktar eru í félaginu. Aðalstjórn heldur skrá yfir félaga með aðstoð deilda.  Aðalstjórn getur vikið félaga úr félaginu fyrir stórfellt brot á félagsreglum.

Merki og búningur

  1. grein

Merki félagsins er hvítur kyndill með rauðum loga á grænum grunni.  Fyrir neðan miðju kyndilsins er letrað BREIÐABLIK.  Aðallitur keppnis- og æfingabúninga félagsins er grænn.

Skipulag
Aðalfundur félagsins

  1. grein ***** ****** *******

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málefnum þess. Hann skal haldinn eigi síðar en 15. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tilkynningu í dagblöðum og á heimasíðu félagsins með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Allir félagar hafa rétt til að bjóða sig fram til setu í aðalstjórn að undanskildum stjórnarmönnum deilda félagsins og starfsmönnum félagsins. Skriflegu framboði skal skila til framkvæmdastjóra félagsins að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund.

Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi og skal hún skipuð sjö einstaklingum. Formaður skal kosinn beinni kosningu á hverjum aðalfundi. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, þannig að þrír stjórnarmenn eru kosnir á hverju ári.

Aðalstjórn skal skipa þriggja manna uppstillinganefnd með hæfilegum fyrirvara fyrir aðalfund. Skal hún skipuð þremur almennum félagsmönnum . Tillögu sinni skal uppstillinganefnd skila til framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Skal tillaga uppstillingarnefndar ásamt framkomnum framboðum liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags.

Allir félagar eldri en 18 ára hafa tillögurétt um lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags.

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti eiga allir félagar eldri en 18 ára.

Hver deild fær að lágmarki tvö atkvæði á aðalfundi en til viðbótar eitt atkvæði  fyrir hverja 100 iðkendur. Þó getur ein deild aldrei fengið meira en 1/3 heildarfjölda atkvæða. Miða skal við iðkendur  19 ára og yngri samkvæmt upplýsingum sem sendar eru til Kópavogsbæjar vegna undangengins starfsárs. Aðalstjórn skal samhliða boðun aðalfundar reikna út fjölda atkvæða og tilkynna stjórnum hverrar deildar viku fyrir aðalfund.

Stjórn hverrar deildar er í sjálfvald sett að velja fulltrúa á aðalfund sem hafa atkvæðisrétt. Fundarstjóri aðalfundar skal sjá til þess að haldin sé skrá yfir fundarmenn sem hafa atkvæðisrétt áður en gengið er til atkvæðagreiðslu.

Formaður aðalstjórnar setur aðalfund. Skal hann hefja dagskrá aðalfundar sem skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra, ritara og kjörbréfanefndar
  2. Formaður leggur fram skýrslu aðalstjórnar
  3. Kjörbréfanefnd skilar áliti sínu
  4. Endurskoðaður ársreikningur lagður fram til samþykktar
  5. Kosning um lagabreytingar
  6. Kosning formanns
  7. Kosning þriggja stjórnarmanna
  8. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags
  9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  10. Umræður um málefni félagsins og önnur mál

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Til þess að breyta lögum félagsins þarf þó 2/3 hluta greiddra atkvæða. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti

Félagsfundur

  1. grein** **** ***** *******

Aðalstjórn félagsins skal kalla saman félagsfund, þegar þörf krefur. Skylt er henni að boða til slíks fundar, ef meirihluti deilda félagsins krefjast þess skriflega, enda sé tilkynnt um fundarefni sem þær óska að sett verði á dagskrá.

Boða skal til félagsfundar með sama hætti og aðalfundur. Félagsfundur og dagskrárefni skulu vera í  samræmi við reglur 5. greinar þessara laga, eins og kostur er. Félagsfundur hefur sama vald og aðalfundur.

Aðalstjórn

  1. grein ***** ******* ********

Aðalstjórn framkvæmir stefnu aðalfundar, stýrir málefnum félagsins á milli aðalfunda, vinnur að alhliða eflingu þess og gætir hagsmuna félagsins í hvívetna. Aðalstjórn kemur fram út á við fyrir hönd félagsins og skuldbindur félagið gagnvart þriðja aðila.

Aðalstjórn skal á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund skipta með sér verkefnum. Stjórn skal að lágmarki kjósa um varaformann og ritara stjórnar. Aðalstjórn er ákvörðunarbær ef meirihluti stjórnar er viðstaddur fund. Einfaldur meirihluti ákvörðunarbærrar stjórnar ræður úrslitum við atkvæðagreiðslu. Aðalstjórn skal setja sér starfsreglur.

Úrdráttur úr fundargerðum aðalstjórnar skulu gerðar opinberar á heimasíðu félagsins eigi síðar en tveimur vikum eftir að fundargerð hefur verið samþykkt.

Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir öllum sameiginlegum eigum félagsins og umsjón með rekstri þeirra og varðveislu.

Að minnsta kosti 2/3 hluta allra stjórnarmanna þarf til að:

  • Veðsetja eignir félagsins
  • Selja varanlega rekstrarfjármuni
  • Kaupa fasteignir

Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins. Hann framkvæmir ákvarðanir aðalstjórnar og stýrir daglegum rekstri félagsins. Hann skal í starfi sínu kappkosta að hafa samráð við deildir félagsins og aðstoða þær eftir föngum í starfi sínu. Framkvæmdarstjóri er prókúruhafi félagsins og hefur vald til að annast allt það sem snertir starfsemi félagsins. Meiriháttar ráðstafanir skal hann þó alltaf bera undir aðalstjórn til synjunar eða samþykktar í samræmi við starfsreglur stjórnar á hverjum tíma.

Aðalstjórn hefur heimild til að skipa starfsnefndir um framkvæmd tiltekinna verkefna. Slíkar starfsnefndir skulu skipaðar að lágmarki einum stjórnarmanni  og allar meiriháttar eða óvenjulegar ákvarðanir skulu bornir fyrir aðalstjórn til samþykktar eða synjunar.

Aðalstjórn er heimilt að veita heimild til stofnunar nýrrar deildar tímabundið en skal leggja slíka ákvörðun um stofnun fyrir næsta aðalfund til samþykktar eða synjunar.

Aðalstjórn samræmir starf og stýrir sameiginlegum málum deilda, skipuleggur sameiginlega þjónustu innan félagsins og annast upplýsingamiðlun. Aðalstjórn setur reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna sem gerðar skulu opinberar á heimasíðu félagsins. Í slíkum reglum skal m.a. kveðið á um hvers konar fjárskuldbindingar deilda skuli leggja til samþykktar hjá aðalstjórn. Einnig hefur aðalstjórn eftirlit með fjárhag deilda og annarra starfseininga félagsins.

Aðalstjórn skal tryggja að gerð séu ársfjórðungsleguppgjör aðalstjórnar og allra deilda. Gerð ársreikninga aðalstjórnar og deilda skal lokið með nægilegum fyrirvara fyrir aðalfund hverrar einingar. Rekstraráætlanir aðalstjórnar og deilda skulu liggja fyrir í upphafi starfsárs deilda og þær yfirfarnar og samþykktar af aðalstjórn.

Skrifstofa félagsins sér um færslu bókhalds, launaútreiknings og greiðslu launa fyrir allar deildir félagsins. Deildir skulu gera samning við aðalstjórn um þá þjónustu sem skrifstofa félagsins veitir. Aðalstjórn getur tilnefnt sérstakan tilsjónarmann sem kynnir sér fjárhag og stöðu deildar ef tilefni er til og kemur með tillögur til úrbóta ef þörf krefur. Hann getur lagt til að aðalstjórn yfirtaki stjórn deildar, ef tillögum til úrbóta er ekki sinnt að veittum ákveðnum fresti. Ef til þess kemur þá skal aðalstjórn tilkynna slíkt skriflega til deildarstjórnar og um leið tekur aðalstjórn að fullu yfir vald deildarstjórnar. Að minnsta kosti 2/3 hluti aðalstjórnar skal  vera samþykkur yfirtöku stjórnar deildar.

Aðalstjórn annast samskipti félagsins við stjórnvöld og önnur samtök með mál sem varða félagið allt.

Aðalstjórn ber að halda að minnsta kosti tvo fundi á ári sameiginlega með stjórnum deilda til að ræða málefni sem tengjast starfi félagsins.

Aðalfundur deildar

  1. grein* *** ****

Aðalfundur deildar skal móta meginstefnu um starfsemi hennar. Aðalfund deildar skal halda ár hvert eigi síðar en 15. apríl eða 15. nóvember eftir eðli starfseminnar. Aðalfundur skal boðaður með minnst tveggja vikna  fyrirvara með tilkynningu á heimasíðu félagsins. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagar viðkomandi deildar. Atkvæðisrétt hafa allir félagar 18 ára og eldri. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Allir félagar hafa rétt til að bjóða sig fram til setu í deildarstjórn. Skriflegu framboði skal skila til framkvæmdastjóra félagsins að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund.  Heimilt er að víkja frá þessari reglu, með samþykki aðalstjórnar, takist ekki að manna laus stjórnarsæti.

Formaður deildar setur aðalfund. Skal hann hefja dagskrá aðalfundar sem skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og ritara
  2. Formaður leggur fram skýrslu deildar
  3. Ársreikningur staðfestur af skoðunarmönnum lagður fram til samþykktar
  4. Kosning formanns
  5. Kosning stjórnarmanna
  6. Umræða um málefni deildar og önnur mál

Á aðalfundi deildar ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Vanræki deild að halda aðalfund skal aðalstjórn boða til fundarins og annast framkvæmd hans. Hætti formaður störfum skal stjórn kjósa nýjan formann fram að næsta aðalfundi deildarinnar. Ef meirihluti stjórnar hættir störfum eða stjórn verður óstarfhæf af einhverjum ástæðum er heimilt að kalla til deildarfundar í því skyni að kjósa nýja stjórn. Skal boðun og framkvæmd fundar fara eftir sömu reglum og vegna aðalfundar deildar.

Deildarstjórn

  1. grein*******

Á milli aðalfunda sér deildarstjórn um starfsemi deildar. Í því felst m.a. að skipuleggja starf deildarinnar, skipa starfsnefndir hennar og hafa umsjón með framkvæmd starfsins. Deildum er heimilt að innheimta af félögum sínum æfingagjöld sem deildarstjórn ákveður.

Deildarstjórn skal skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund deildar.

Deildarstjórn ber ábyrgð á útgjöldum, tekjuöflun og fjárreiðum deildar og að fylgt sé opinberum reglum og fyrirmælum aðalstjórnar um bókhald, endurskoðun, reikningsskil og meðferð fjármuna.

Slit félagsins

  1. grein*******

Verði félagið lagt niður skulu eignir þess ganga til Kópavogsbæjar.  Sé deild lögð niður ganga eigur hennar til aðalstjórnar.

Gildistaka

  1. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.  Jafnframt falla eldri lög úr gildi.

 

Samþykkt á aðalfundi 1997
* Samþykkt á aðalfundi 2003
**Samþykkt á aðalfundi 2004
*** Samþykkt á aðalfundi 2008
**** Samþykkt á aðalfundi 2013
***** Samþykkt á aðalfundi 2015
****** Samþykkt á aðalfundi 2017
******* Samþykkt á aðalfundi 2018
******** Samþykkt á aðalfundi 2019