Breiðablik sigraði Hamar á heimavelli í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi um sæti í Domino´s deildinni að ári. Blikar því komnir í mjög vænlega stöðu og leiða einvígið 2-0. Sigra þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu.

Blikar mættu flatir til leiks á meðan Hamar skoraði 7 fyrstu stig leiksins án þess að Breiðablik næði að svara, en þá kom áhlaup frá Blikum sem skoruðu 13 stig í röð. Eftir það var fyrri hálfleikur jafn og spennandi en Hamarsmenn settu þrist augnarbliki áður en flautað var til hálfleiks. Breiðablik 7 stigum undir í leikhlé.

Þessi þristur í lok fyrrihálfleiks virtist eitthvað hafa setið í Blikum því þeir misstu Hvergerðinga mest 13 stigum fram úr sér í 3. leikhluta. Jónas, þjálfari Blika, tók þá leikhlé og við það rönkuðu piltarnir úr Kópavogi við sér. Staðráðnir í því að laga stöðuna söxuðu þeir hægt og rólega á forskot Hamarsmanna, staðan 65-70 fyrir lokaleikhlutann. Með baráttu og eljusemi komumst Blikar yfir í 4. leikhluta og létu forystuna ekki af hendi. Lokatölur 87-84.

Það var frábær mæting á pallanna og létu stuðningsmenn beggja liða heyra vel í sér allann leikinn. Körfuknattleiksdeildin vill bera sérstakar þakkir til Kopacabana sem sáu til þess að allir fóru hásir heim að leik loknum!

Breiðablik: Árni Elm­ar Hrafns­son 17/​6 frá­köst, Snorri Vign­is­son 15/​7 frá­köst, Christoph­er Woods 13/​8 frá­köst, Er­lend­ur Ágúst Stef­áns­son 12/​4 frá­köst/​7 stoðsend­ing­ar, Jeremy Her­bert Smith 12/​7 frá­köst/​6 stoðsend­ing­ar, Hall­dór Hall­dórs­son 7/​4 frá­köst, Svein­björn Jó­hann­es­son 7/​7 frá­köst, Ragn­ar Jós­ef Ragn­ars­son 4.

Frá­köst: 26 í vörn, 20 í sókn.

Næsti leikur liðanna er miðvikudaginn 11. apríl í Hveragerði og mun Körfuknattleiksdeild Breiðabliks bjóða stuðningsfólki sínu uppá fría rútuferð á leikinn, rútan fer frá Smáranum stundvíslega kl. 18:00. Rútan mun svo keyra aftur heim í Smárann strax að leik loknum.

Hægt er að melda sig í rútuna með því að haka við „going“ í fésbókarviðburði Körfuknattleiksdeildarinnar: https://www.facebook.com/events/1651340881621647/