Breiðablik í deild þeirra bestu

Breiðablik hafði sigur gegn Hamar á föstudaginn, 13. apríl í Smáranum og þar með sigur í einvíginu um laust sæti í Domino’s deildinni á næsta tímabili. Einvígið fór 3-1 fyrir Breiðablik.

Breiðablik hóf úrslitakeppnina gegn liði Vestra frá Ísafirði og sigraði það einvígi nokkuð sannfærandi 3-0.

Úrslita einvígið gegn Hamri var jafnt og æsispennandi og réðust úrslit fyrstu tveggja leikjanna ekki fyrr en á loka sekúndunum. Breiðablik gerði góða ferð til Hveragerðis í fyrsta leiknum og vann hann í framlengingu og tók þar með heimavallarréttinn af Hamarsmönnum. Í öðrum leik liðanna var Breiðablik sterkari aðilinn í leiknum en Hamarsmenn hefðu hæglega geta stolið sigrinum hefði lokaskot þeirra ratað ofan í körfuna. Þriðji leikur einvígsins fór fram í Hveragerði og byrjuðu Blikar þann leik glimmarandi vel en náði ekki að halda góðri spilamennsku út allann leikinn og Hvergerðingar runnu á lagið og höfðu betur í lok leiks. Síðasti leikur liðanna var leikinn í Smáranum og var hann jafn og spennandi mest allann tímann eða allt þar til í 4. leikhluta þá tóku Blikar öll völd á vellinum og uppskáru 26 stiga sigur, lokatölur 110-84. Það var vel mætt á pallana í öllum leikjum liðanna en mest var í lokaleiknum þegar um 1000 manns lögðu leið sína í Smárann.

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks vill koma sérstökum þökkum á framfæri til stuðningsmanna sem gerðu þessa stund ógleymanlega.

Breiðablik leikur því í efstu deild karla í fyrsta sinn frá árinu 2009-2010 en frá árinu 1995 hefur Breiðablik leikið sjö tímabil í efstu deild og því verður það þeirra 8. tímabili á næsta ári.

Þetta er í fyrsta sinn síðan tímabilið 1995-1996 sem Breiðablik á tvö lið í efstu deild karla og kvenna á sama tíma.