Vilhjálmur ráðinn þjálfari Augnabliks og 2. flokks kvenna

Vilhjálmur Kári Haraldsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Augnabliks og 2. flokks kvenna hjá Breiðabliki. Þá mun hann einnig koma að skipulagi þjálfunar 3. flokks kvenna. Eins og flestir vita er Augnablik að mestu skipað leikmönnum úr 2. og 3. flokki Breiðabliks en þær munu keppa í Inkassodeildinni á komandi tímabili.

Hann hóf þjálfaraferilinn hjá Blikum árið 1995 með 7. flokk karla og þjálfaði hjá félaginu allt fram til ársins 2004. Á þeim tíma kom hann að þjálfun flestra yngri flokka félagsins.

Starfaði sem yfirþjálfari hjá FH um nokkurt skeið og undanfarin ár hefur hann þjálfað 4. og 3. flokk karla og 3. og 2. flokk kvenna hjá FH.

Hann hefur einnig starfað fyrir Knattspyrnusamband Íslands sem leiðbeinandi á námskeiðum og var aðstoðarþjálfari U-17 kvenna.

Vilhjálmur lék á sínum tíma 69 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks frá árinu 1993 til 1998.

Hann er menntaður grunnskólakennari og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og hefur einnig lokið KSÍ A þjálfaragráðu.

Við bjóðum Vilhjálm velkominn til starfa!