Vídd og Knattspyrnudeild Breiðabliks undirrituðu nýverið samning þess efnis að Vídd verði einn af aðalstyrktaraðilum deildarinnar til næstu fjögurra ára. Allir keppnisbúningar Knattspyrnudeildarinnar munu bera merki Víddar á samningstímanum.

Það er mikill fengur í því fyrir Knattspyrnudeildina að fá inn öflugan bakhjarl til að styðja enn frekar við það öfluga starf sem unnið er innan Breiðabliks.

Í ljósi samstarfs Breiðabliks og Víddar munu meðlimir Breiðabliks (stuðningsmenn og iðkendur) njóta sérstakra viðskiptakjara hjá Vídd.  Vídd bíður stuðningsmönnum og fjölskyldum iðkenda 20% afslátt af öllum vörum í Vídd (gildir ekki með öðrum tilboðum) gegn framvísun árskorta, Blikaklúbbskorta eða með því að sýna í Sportabler að foreldrar eigi iðkendur í Breiðabliki.

Flísaverslunin Vídd var stofnuð árið 1991 af Sigrúnu Baldursdóttur og Árna Yngvasyni.  Til að byrja með sérhæfði verslunin sig í innflutningi á flísum úr náttúrusteini, einkum graníti en seinna  var nánast öllum öðrum tegundum af flísum bætt við.  Vídd hefur verið staðsett í Kópavogi síðan 1996, fyrst á Nýbýlavegi 30, en frá 1999 hefur verslunin verið í Bæjarlind 4.

Hafsteinn Árnason frá Vídd og Sigmar Ingi Sigurðarson Markaðs- og viðburðastjóri Breiðabliks handsala samstarfið.