10. flokkur drengja, drengjaflokkur og unglingaflokkur eru allir komnir í úrslit bikarkeppni KKÍ og Geysis og munu flokkarnir þrír koma til með að keppa um bikarmeistaratitila í Laugardalshöll dagana 14.-16. febrúar.

Unglingaflokkur mætti sameiginlegu liði Selfoss/Hamars/Hrunamanna í Smáranum sunnudaginn 26. janúar. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og sóttu sterkt á körfuna og hittu vel úr skotum sínum fyrir utan og leiddu 15-19 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta komust Blikar betur inn í leikinn en bæði lið spiluðu mjög fast og áttu tíðar ferðir á vítalínuna, staðan í hálfleik 36-35 Breiðabliki í vil. Í 3. leikhluta var svipað uppi á teningnum og í leikhlutanum á undan, hart var tekist á og skiptust liðin á að skora, staðan eftir þrjá leikhluta var 55-53. Í byrjun fjórða leikhluta á áttu gestirnir gott áhlaup og komust yfir 61-64. Því álhlaupi var svarað vel af hálfu Blika með stífri pressuvörn og sóknarfráköstum sem skiluðu sér í stigum á töflunni. Breiðablik bar loks sigur úr býtum, lokatölur 74-67. Unglingaflokkur mun annaðhvort mæta Njarðvík eða KR/KV í bikarúrslitaleiknum.

Drengjaflokkur mætti liði Tindastóls í Smáranum laugardaginn 1. febrúar. Blikar byrjuðu leikinn betur og náðu strax ágætis forskoti og voru að fá auðveldar körfur á sama tíma og þeir þröngvöðu Tinstastólsmenn í erfið skot. Þegar það fór að líða á fyrri hálfleikinn vöknuðu Tindastólsmenn til lífsins og fóru setja skotin fyrir utan á meðan Blikar fóru illa að ráði sínu sóknarlega. Blikar leiddu með fjórum stigum í hálfleik. Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn vel en Stólarnir hleyptu þeim grænklæddu aldrei of langt á undan sér. Bæði lið voru að skiptast á körfum en svo undir lok þriðja leikhluta snögghitnuðu Tindastólsmenn og fóru þeir að setja hvert annað þriggjastigaskotið á fætur öðru og minkuðu muninn niður í eitt stig áður en leikhlutinn rann út. Blikar náðu vopnum sínum í fjórða leikhluta og náðu þægilegu forskoti sem Stólar náðu aldrei að brúa. Breiðablik vann leikinn að lokum með 11 stiga mun. Drengjaflokkurinn mun mæta KR í bikarúrslitaleiknum.

10.flokkur drengja mætti Njarðvík í Smáranum fimmtudaginn 30. janúar. Fyrr í vetur mætust liðin í deildarkeppni þar sem Breiðablik vann 16 stiga sigur. Breiðablik byrjaði leikinn betur og komu stöðunni snemma í 9-3. Eftir það snéru Njarðvík taflinu sér í vil og leiddu eftir fyrsta leikhluta 9-13. Í öðrum leikhluta tóku Njarðvíkingar öll völd á vellinum og skoruðu körfur í öllum regnboganslitum á meðan ekkert gekk sóknar- né varnalega hjá Breiðabliki. Blikar réðu ekkert við njarðvíkinginn Róbert Birmingham sem fór á kostum og skoraði 21 stig í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 19-28 Njarðvíkingum í vil.

Í seinni hálfleik skiptu Blikar yfir í svæðisvörn sem Njarðvíkingum gekk illa að leysa, á sama tíma skiptu Njarðvíkingar einnig yfir í svæðisvörn en Blikar áttu ekki í teljandi vandræðum með hana og náðu að klóra sig aftur inn í leikinn. Staðan eftir þrjá leikhluta var 38-36 Breiðabliki í vil.

Blikar eyddu mikilli orku í að vinna sig aftur inn í leikinn og byrjuðu Njarðvíkingar leikhlutann á að skora níu stig gegn engu og munurinn skyndilega orðinn átta stig og ekki margar mínútur eftir af leiknum. Þjálfarar Breiðabliks neyddust því til að taka síðasta leikhlé sitt til að stoppa blæðinguna. Leikhléið virkaði sem skyldi og náðu Blikar aftur að jafna leikinn 45-45 þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Bæði lið skiptast svo á körfum en Njarðvíkingar setja þriggjastigakörfur á meðan Blikar setja aðeins tveggjastigakörfur og Njarðvíkingar komnir fjórum stigum yfir þegar 50 sekúndur eru eftir af leiknum og útlitið svart fyrir heimamenn. Arnar Freyr Tandrason tók þá til sinna ráða og brunar upp völlinn og setur sniðskot og minkar muninn niður í tvö stig þegar 35 sekúndur eru eftir. Njarðvíkingar halda í sókn og ná ekki að skora, Arnar Freyr tekur varnarfrákast þegar 10 sekúndur eru eftir af leiknum og aftur brunar hann upp allann völlinn og smýgur sér á milli tveggja varnarmanna sem standa undir körfunni og setur sniðskot sitt ofan í og fær villu að auki og jafnar leikinn 53-53. Stráknum brást ekki bogalistin á vítalínunni og setti hann skotið beint ofan í, ískaldar taugar. Blikar, á ótrúlegan hátt komnir einu stigi yfir og fjórar sekúndur eftir af leiknum. Njarðvíkingum tókst ekki að nýta lokasókn leiksins og Blikar komnir með farmiða í höllina. 10.flokkurinn mun mæta annaðhvort Stjörnunni eða Hrunamönnum í bikarúrslitaleiknum.

Félagið er afar stolt af árangri þessara flokka og er þetta mikil viðurkenning fyrir það starf sem unnið er í yngri flokkum félagsins. Sjáumst í Laugardalshöll á Bikarhelginni 💚