Símamót Breiðabliks í knattspyrnu var haldið á félagssvæðum Breiðabliks dagana 9. – 12. júlí 2020.  Mótið var haldið í fyrsta sinn árið 1985 og hefur afar sérstakan sess í hugum þeirra sem eru velunnarar kvennaknattspyrnunnar á Íslandi.  Þetta er stærsta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi og hefur verið um langa hríð.  Í ár voru 2.446 stúlkur skráðar til leiks.   Þær skiptust í 368 lið frá 40 félögum  alls staðar af landinu.  Sennilega gera margir sér ekki grein fyrir hversu umfangið á framkvæmd mótsins er gríðarlegt.  Það er ekki sjálfgefið að halda utan um skipulagninguna og sjá um framkvæmd á 1.472 knattspyrnuleikjum á 37 leikvöllum á 3 keppnissvæðum Breiðabliks á einungis 3 dögum.   Mótið hefur aldrei verið umfangsmeira og stærra en einmitt nú en það var haldið í fyrsta sinn árið 1985.   Keppendur lyftu á loft 47 bikurum í leikslok – og allir fengu verðlaunapening.

image

Hér eru 2 af 450 sjálfboðaliðum Símamótsins. Umferðaverðir i Fagralundi. Þau sögðu að foreldrar almennt væru afar ánægðir með framkvæmdina og ekki síst “hólfaskiptinguna”. Besta Símamótið frá upphafi.

Í margra huga er þátttaka í Símamótinu ár hvert ákveðið hámark sem alla sem koma í Kópavoginn ár hvert og upplifa stemninguna sem er einstök – og ólýsanlegt að sjá ánægju og gleði úr andlitum keppenda og aðstandenda.

image

Einn af þúsundum foreldra með 3 Víkinga tilbúna í slaginn. Hannes Halldórsson landsliðs markmaður og leikmaður Vals. Hannes var afar ánægður með Símamótið.

COVID- 19 – Afar sérstakar kringumstæður

Símamótið 2020 verður lengi í minnum haft.  Ekki eingöngu vegna þess að þetta var stærsta mótið hingað til – heldur líka út af þeim aðstæðum sem COVID-19 farsóttin hefur á samfélagið – og ekki síst allt samkomuhald í landinu.   Það kom vissulega upp umræða hvort gerlegt væri að halda mótið við kringumstæður sem þessar.  En það var ákveðið að leggjast yfir hlutina og leita að leiðum til að.

image

Niðurstaða þessarar vinnu var að ákveðið var að spila á 3 minni útgáfum af Símamótinu en hingað til hefur verið gert.  5. flokkur lék í Fagralundi í Fossvogi og gistu aðkomuliðin í MK.  Það er mikið búið að mæða á þessum undanfarnar vikur. Jóhann Þór Jónsson mótsstjóri og Eysteinn Pétur Lárusson Framkvæmdastjóri Breiðabliks. Þeir – ásamt öllum sjálfboðaliðunum stóðu sig frábærlega.

Annað mótssvæði var í Smáranum sem skipt var með girðingu sem náði á milli Fífunnar og Kópavogsvallar til að skilja á milli 6. (Fífu- og Blikavellir) og 7. flokks – sem lék á sjálfum aðalvellinum auk Smárahvammsvelli.

Mótsstjórn gaf út mjög ítarlegar leiðbeiningar undir kjörorðinu “Við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram!”  Það væri hægt að skrifa meistararitgerð um framkvæmd mótsins en í stuttu máli má segja að öll framkvæmd mótsins hafi tekist vonum framar.

image

Það er ekki lítið mál að skipulegja dómgæslu á 1.472 knattspyrnuleikjum á 3 dögum. Dómarastjórar voru Héðinn Gunnarsson og Hermann Óli Bjarkason og var afar gaman að fylgjast með fagmennsku þeirra.

Margir voru með efasemdir um að hvort halda ætti mótið yfirleitt eða aflýsa því með öllu.   Það kom viðtal við formann mótsstjórnar í kvöldfréttum RÚV sama kvöld og setningarhátíðin var og þar var Jóhann Þór Jónsson spurður eins og sakamaður hvort það væri ekki “ábyrgðarlaust að halda þetta mót í ljósi aðstæðna í samfélaginu”.  Jóhann svaraði spurningunni mjög vel og benti á að ef fólk myndi fylgja fyrirmælum þá væri hér öllum reglum um fjarlægðir fylgt út í ystu æsar.   Setningarhátíðin var afar vel heppnuð og forseti Íslands og Jón Jónsson slógu í gegn, hvor á sinn hátt (sjá aðalmynd).  Stelpurnar tilbúnar í slaginn.

Einstaklega vel heppnað Símamót

Það er samdóma álit allra þeirra sem rætt var við að Símamótið 2020 var einstaklega vel heppnað, sama við hvern var rætt.

Símamótið okkar Blika er ákveðið flaggskip í flotanum sem við gerum út í rekstri félagsins. Samstarfið við stuðningsaðila var afar gott og hnökralaust. Nefna verður sérstaklega lykilaðilann, Simann. Hann kom serlega sterkt inn í ár við þessar óvenjulegu aðstæður. Til að gera aðstandendum og áhugasömum betur færi á að fylgjast með mótinu var Sjónvarp Símanns með beinar útsendingar frá mótinu. Sýnt var frá öllum keppnivöllunum þremur þ.e. Blikavöllum við Reykjanesbraut, Fagralundi i Fossvogi og frá Kópavogsvellinum sjálfum, aðalleikvangi okkar Blika. Þetta mæltist afar vel fyrir.  Í frétt frá Mótsstjórn að loknu Símamótinu segir m.a. að hún “ …..   sé einstaklega þakklát fyrir það hvernig til hefur tekist hér um helgina.  Þá segir að foreldrar, þjálfarar og aðrir aðstandendur hafa staðið sig frábærlega í því að fara eftir þeim leiðbeiningum sem við settum fram fyrir mótið og hefur skipting á milli hólfa gengið nær fullkomlega eftir og þannig höfum við náð að virða þær fjöldatakmarkanir sem lagt var upp með.  Breiðablikshjartað er stórt og við eigum öflugt bakland af fólki sem er tilbúið til að stíga inn og leggjast á árarnar með okkur til að útfæra þetta flókna verkefni. Okkur telst til að við séum með um tæplega 450 sjálfboðaliða að störfum með okkur hér um helgina sem eru að skila ríflega 2000 vinnustundum eða 250 dagsverkum í sjálboðaliðavinnu.  Til einföldunar má segja að við séum að keyra eitt stykki Pæjumót í Fagralundi og eitt N1 mót í Smáranum sem sýnir kannski það umfang sem við erum að takast á við.  Fyrst og fremst erum við þakklát fyrir að hafa getað útfært þetta mót á þann hátt að stelpurnar fengu að spila sinn fótbolta, efla sína færni og hafa gaman að. Þetta var ekki sjálfgefið eins og staðan leit út í byrjun síðustu viku en með góðu skipulagi og góðum stuðningi var hægt að keyra þetta í því sem næst óbreyttri mynd“

image

Það er klásula i öllum leikmannasamningum meistaraflokka Breiðabliks karla og kvenna að starfa sem sjálfboðaliði á Símamótinu. Það hefur aldrei verið gerð athugasemd við þetta akvæði af neinum leikmanni. Her er Kwame Quee að gera sig kláran fyrir dómaraverkefni.

Mótsstjórn og starfsmenn Breiðabliks fá hér þakkir frá blikar.is  fyrir einstaklega vel leyst verkefni. Starfsmenn Breiðabliks sömuleiðis og svo auðvitað sjálfboðaliðarnir allir. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Undirritaður naut þeirra forréttinda að fá að dæma nokkra leiki á sunnudeginum í 6. flokki.  Þetta hef ég gert í mörg ár og gekk mjög vel.   Tilhlökkunin er líka mikil fyrir Símamótið 2021 enda stefnir elsta barnabarnið á þátttöku þá.   Stelpurnar  voru bæði kappsamar og prúðar og sýndu mikla hæfni á knattspyrnuvellinum.  Þarna leynast eflaust landsliðskonur framtíðarinnar – en þær nánast allar hafa sagt frá því að þær hafi stigið sín fyrstu skref í keppni á Símamótinu hjá Breiðablik.   En fyrst og fremst er það gleðin og ánægjan sem skín úr andlitunum sem gefur svo mikið og gerir samfélagið betra.

Hákon Gunnarsson

image

Greinarhöfundur dæmdi nokkra leiki á Smárahvammsvelli a sunnudaginn. Fékk líka það hluverk að afhenda þátttökuverðlaun fyrir hönd Breiðbliks. Hér eru það “Breiðablik 8” i 6. flokki sem taka við sínum verðlaunum Frábært lið. Og foreldrarnir til mikils sóma.