Kæru Blikar,

Síðastliðið vor og sumar hafa verið mjög áhugaverð og krefjandi á margan hátt fyrir iðkendur og starfsfólk Knattspyrnudeildar Breiðabliks. Í gegnum fyrri hluta faraldursins þá reyndi virkilega á okkar iðkendur að halda sér við efnið og voru þjálfarar duglegir að dreifa æfingaefni og áskorunum til þeirra sem gátu þá haldið sér við efnið á meðan ekki var hægt að mæta á æfingar. Þjálfarar eiga risastórt hrós skilið fyrir að leggja sig fram við að koma fram með nýja hluti sem enginn hafði í raun prófað áður. Það sýndi sig síðan að þegar æfingar hófust aftur voru afföll lítil sem engin og iðkendur komu alla jafna vel stemmdir inn í sumarið. Takk aftur kæru þjálfarar!

Ég held að allir viti að Breiðablik rekur mjög umfangsmikið starf en þegar kom að undirbúning á æfingatöflum vetrarins var lagst yfir ákveðna tölfræði og það sem sló okkur sérstaklega var hvílíkur fjöldi KSÍ leikja fer fram á svæðum Breiðabliks. Ef horft er á tímabilið frá 1. nóv. 2019 til 30 sept. 2020 þá voru spilaðir samtals 669 leikir í Fagralundi og í Smáranum á vegum okkar liða þ.e. Breiðabliks, Augnabliks og Smára. Þetta leggur sig á nákvæmlega 2 leiki á dag, alla þessa daga, þar sem Breiðablik mætir með sitt lið, sína dómara og aðstoðardómara, þjálfara og annað sem þarf til að leikurinn geti farið fram. Við þessar aðstæður er gott að eiga góð mannvirki sem geta mætt okkar kröfum en áfram þarf samt að horfa til framtíðar því iðkendum í yngri flokkum Breiðabliks fer fjölgandi ár frá ári og eins gott að gera sér grein fyrir því í tíma hvað þarf til að mæta þeirri fjölgun.

Í síðustu viku voru æfingatöflur og æfingagjöld næsta vetrar sett á heimasíðuna og þar með opnað fyrir skráningar fyrir næsta tímabil. Skráningin er sem fyrr í gegnum Nóra hér og við hvetjum alla foreldra og forráðamenn til að ganga frá skráningu sem fyrst. Án skráningar eru börnin ekki tryggð í gegnum félagið, Sportabler ekki virkur og eins er mikilvægt fyrir þjálfara að hafa sem besta yfirsýn, sem fyrst, yfir fjölda iðkenda í sínum hópum. Við hvetjum einnig alla sem telja sig eiga tök á að nýta sér niðurgreiðslu upp á 15 þúsund krónur með því að taka eina vakt á Símamótinu 2021 sem haldið verður dagana 8. – 11. júlí á næsta ári. Við þurfum að manna að lágmarki um 500 vaktir á hverju móti og því skiptir hver vakt máli.

Talandi um Símamótið þá er fullvíst að Símamótið 2020 verður eflaust lengi í minnum haft en þetta mót reyndist mjög snúið í framkvæmd í ljósi aðstæðna. Þarna spiluðu 2.446 stelpur í 368 liðum frá 40 félögum samtals 1.472 leiki á 37 völlum og veittir voru 47 bikarar þannig að allri tölfræði sé haldið til haga. Það sýndi sig hinsvegar að með því að setja upp þétt skipulag og aðgerðaráætlun með frábærum hópi sjálboðaliða og síðan ekki síst að fylgja þeirri áætlun til hlýtar þá gekk mótið snurðulaust fyrir sig og vonandi fundu stelpurnar ekki fyrir neinu vegna þessa. Í öllum áskorunum koma hins vegar upp tækifæri og við förum með margvíslegt veganesti úr þessu móti sem gerir okkur kleift að gera enn betur á næstu árum.

BUR framkvæmir skoðanakönnun meðal foreldra okkar iðkenda á tveggja ára fresti. Ég vil hvetja alla þá sem eiga eftir að svara könnuninni að gera það sem fyrst og muna að svara þarf fyrir hvern og einn iðkanda. Hlekkurinn á könnunina er hér en þessar upplýsingar eru okkur mjög mikilvægt veganesti inn í starfið og eins til að fá samanburð á milli ára.

Haldnir verða foreldrafundir með þjálfurum og fulltrúum Barna- og unglingaráðs þegar starfið verður komið á fullt en eflaust verða þeir þó með eitthvað breyttu sniði en áður vegna fjöldatakmarkana. Í lok september verður uppskeruhátíð yngri flokka haldin og við vonumst til að sjá sem flesta þar fagna árangri sumarsins og sletta aðeins úr klaufunum.

Blikakveðja
Jóhann Þór Jónsson
Formaður Barna- og unglingaráðs