Á föstudaginn fór fram síðasti mótsleikur Breiðabliks í yngri flokkum á tímabilinu 2020-2021.
 
Þar unnu stelpurnar okkar í 2.fl kvk glæsilegan 3-2 sigur á ÍA í úrslitaleik bikarkeppninnar.
2.fl kvk eru því bæði Íslands- og bikarmeistarar, en fyrrnefndur titill var tryggður á síðasta degi ágústmánaðar einnig gegn skagastelpum.
 
Þar sem tímabilinu er nú formlega lokið er vert að staldra við og líta yfir brot af þeim árangri sem náðist í sumar:
 
2.flokkur kvenna eru bæði Íslands- og bikarmeistarar
3.flokkur kvenna eru bæði Íslands- og bikarmeistarar
3.flokkur karla eru Íslandsmeistarar
4.flokkur kvenna eru Íslandsmeistarar
5.flokkur karla eru Íslandsmeistarar
5.flokkur kvenna eru Íslandsmeistarar B-liða
 
Þess má einnig geta að 5. og 6.fl kvk komust í úrslit á Símamótinu.
6.fl kvk vann svo Steinullarmótið á Sauðárkróki.
5.fl kk lenti í þriðja sæti á N1 mótinu á Akureyri eins og 6.fl kk sem náði sama árangri á Orkumótinu í Vestmannaeyjum.
 
Eins og fyrr segir er þetta einungis brot af þeim árangri sem náðist á nýafstöðnu tímabili.
 
Það er mikilvægt að allir átti sig á því að árangur yngri flokka starfs verður síst mældur í bikurum heldur miklu frekar í fjölda iðkenda og þeirra framfara bæði innan vallar sem leikmenn en einnig allra helst utan vallar sem einstaklingar.
 
Af þessum árangri erum við hvað stoltust.
Að vera lang fjölmennasta knattspyrnudeild landsins.
Að það sé eftirsóknarvert að vera í Breiðablik og það er ekki að ástæðulausu.
Við værum ekki með 60 lið í Íslandsmótinu(2.-5.fl), þar sem næst fjölmennasta félagið er með 35 lið, ef ekki væri fyrir frábært starf.
 
Á bakvið þetta starf og alla þessa iðkendur eru magnaðir þjálfarar, foreldrar, aðstandendur og aðrir sjálfboðaliðar.
 
Samstarf og drifkraftur þessa fólks og þá sérstaklega sjálfboðaliðanna hefur verið umtalaður í mörg ár og hingað er horft með aðdáunaraugum.
 
Viðburðir eins og t.d. Símamótið væri ekki möguleiki án allra okkar sjálfboðaliða og félagsmanna.
Símamótið 2021 var fjölmennasta íþróttaliðamót sem haldið hefur verið á Íslandi.
450 lið, 39 félög, 38 vellir, 3000 keppendur og hátt í 600 sjálfboðaliðar!
 
Einnig má nefna Ali-mót 5.fl kk sem sett var á laggirnar alfarið af foreldrum þessa flokks fyrir nokkrum árum og hefur það haldist þannig síðan, sem eitt flottasta vetrarmót landsins.
 
Við allt þetta fólk viljum við segja TAKK! 💚
Það er ykkur að þakka að Breiðablik er eitt fremsta og flottasta félag landsins.
Eitt fyrir klúbbinn.