Íslandsmót unglinga í klassískum kraftlyftingum fór fram í Miðgarði sl. laugardag þar sem Breiðablik sendi frá sér 8 keppendur, 2 konur og 6 karla. Mörg persónuleg met voru slegin, fjöldi medalía sóttar, eitt íslandsmet og átti Breiðablik stigahæsta keppanda mótsins, Mána Frey Helgason, en hann varði þann titil frá því í fyrra.

 

Kvennamegin kepptu þær Elva Katrín Öfjörð (-69kg flokki) og María Líf Flosadóttir (+84kg flokki). Urðu þær báðar Íslandsmeistarar í sínum flokki. Elva lyfti 110kg í hnébeygju, 57.5kg í bekkpressu og 130kg í réttstöðulyftu sem skilaði henni 297.5kg í samanlögðu. Þetta var hennar fyrsta þrílyftumót í klassískum kraftlyftingum. María lyfti 140kg í hnébeygju, 85kg í bekkpressu og 152.5kg í réttstöðulyftu sem skilaði henni 377.5kg í samanlögðu. María nældi sér í leiðinni í lágmörk á Norðurlandamót unglinga sem verður haldið hér á Íslandi í september.

 

Karlamegin kepptu Máni Freyr Helgason (-93kg flokki), Heiðmar Gauti Gunnarsson (-105kg flokki), Gunnar Ingi Ingvarsson (-105kg flokki), Róbert Guðbrandsson (-120kg flokki), Alexander Jóhannesson (-120kg flokki) og Tristan Ernir Hjaltason (-74kg flokki U18). Máni Freyr gerði sér lítið fyrir og vann sinn þyngdarflokk ásamt því að verða stigahæsti keppandi mótsins með 95.5 IPF GL stig. Hann lyfti 247.5kg í hnébeygju, 175kg í bekkpressu og 295.5kg í réttstöðulyftu, sem er jafnframt Íslandsmet í greininni, sem skilaði honum 718kg samanlagt. Með þessum árangri tryggði hann sér þátttökurétt á HM unglinga sem fer fram í Costa Rica í ágúst. Þetta skilaði einnig þátttökurétt á EM fullorðinna 2026. Heiðmar Gauti endaði í 4. sæti í -105kg flokki kk. með 267.5kg hnébeygju, 155kg bekkpressu og 250kg réttstöðulyftu. Samanlagt lyfti hann 672.5kg og tryggði sér þátttökurétt á EM unglinga sem fer fram í Litháen í nóvember. Í sama þyngdarflokki endaði Gunnar Ingi í 6. sæti með 580kg samanlagt. Hann lyfti 210kg hnébeygju, 120kg bekkpressu og 250kg réttstöðulyftu. Róbert lenti í 3. sæti í -120kg flokki með 285kg hnébeygju, 180kg bekkpressu og 267.5kg rétttöðulyftu sem skilaði honum 732.5kg samanlagt og þátttökurétti á HM unglinga í +120kg flokki. Í sama þyngdarflokki lyfti Alexander 215kg hnébeygju, 127.5kg bekkpressu og 250kg réttstöðulyftu og endaði í 5. sæti. Tristan Ernir vann sinn þyngdarflokk (-74kg kk. U18) með 150kg hnébeygju, 90kg bekkpressu og 170kg réttstöðulyftu sem skilaði honum 410kg samanlögðu. Þetta var einnig hans fyrsta kraftlyftingamót.

 

Ásamt keppendum frá Breiðablik var fjöldinn allur af aðstoðar- og stuðningsmönnum frá félaginu. Klúbburinn er án efa sá háværasti þegar kemur að hvatningu liðsfélaga á pallinum sem skilar sér í gríðargóðum árangri og stemningu. Óskum öllum Blikum innilega til hamingju með árangurinn. 

 

Áfram Breiðablik!