Um Kyndilinn

Kyndillinn er leiðarvísir sem er ætlaður öllum þeim sem koma að starfi félagsins með einum og öðrum hætti, iðkendum, þjálfurum, starfsfólki, sjálfboðaliðum (hér eftir kallaðir kyndilberar Breiðabliks) og stuðningsmönnum. Kyndlinum er ætlað að útlista fyrir hvað félagið stendur og veita leiðsögn sem hægt er að vísa til í tengslum við þær fjölmörgu ákvarðanir sem þarf að taka innan félagsins á degi hverjum, sem og við frekari skipulags- og stefnumótunarvinnu.

Það er því mikilvægt að allir sem að tengjast iðkendum og starfi félagsins kynni sér efni leiðarvísisins og sameinist á bak við tilgang, gildi og markmið Breiðabliks. Hlutverk Kyndilsins er að allir stefni í sömu átt, iðkendum og félaginu til heilla. Með samstilltu átaki hefur Breiðablik ekki einungis tækifæri til að halda áfram að vera leiðandi afl í íslensku íþróttalífi, heldur fyrirmyndarfélag á heimsvísu

Breiðablik er uppeldis- og afreksíþróttafélag sem sinnir fjölþættu uppbyggingar-, forvarnar- og keppnishlutverki. Félagið heldur úti öflugu og metnaðarfullu starfi í 12 deildum og á ári hverju taka mörg þúsund manns þátt í starfi Breiðabliks með einum eða öðrum hætti.

ÁSTRÍÐA – alla leið eru einkunnarorð Breiðabliks. Orðið ástríða inniheldur bæði orðin ást og stríð, sem á vel við í íþróttunum þar sem við komum alltaf fram af umhyggju og háttvísi á sama tíma og við berjumst saman til sigurs. Eldurinn í kyndlinum í merki Breiðabliks táknar ástríðuna – frumkraftinn sem skapar neistann er kveikir stórt bál. Ástríðan veitir okkur kjark og kraft til að nálgast öll verkefni, stór og smá, sem tengjast Breiðablik af áhuga, ákefð og alúð.