Viðbragðsáætlanir vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldi

Breiðablik leggur sig fram um að koma í veg fyrir allar tegundir ofbeldis en bregðast faglega við öllum tilvikum sem upp kunna að koma.

Stjórn og forsvarsfólk ber ábyrgð á að til staðar séu viðbragðsáætlanir og annað sem þarf hverju sinni.

Breiðablik hvetur allt félagsfólk til að vera vakandi fyrir vísbendingum um einelti, áreitni eða ofbeldi og koma ábendingum á framfæri.

Verði iðkendur, forráðafólk/aðstandendur iðkenda eða annað félagsfólk þess áskynja að einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi eigi sér stað í starfi Breiðabliks er það eindregið hvatt til að hafa samband við þjálfara viðkomandi hóps, formann deildarinnar og/eða framkvæmdastjóra félagsins.

Einnig er hægt að hafa samband við óháðan samskiptafulltrúa ÍSÍ með því að smella hér: https://www.samskiptaradgjafi.is/

Þjálfurum, stjórnendum og öðru starfsfólki sem fá til sín tilkynningar ber að koma þeim áfram til framkvæmdastjóra. Jafnframt er félagsfólk sem verður vitni að einelti eða áreitni hvatt til að hafa eftirfarandi í huga:

  1. Ekki taka þátt í óviðeigandi hegðun eða taka undir óviðeigandi ummæli.
  2. Reyndu að mótmæla óviðeigandi hegðun eða ummælum eftir fremsta megni.
  3. Reyndu að sýna þolandanum stuðning með öllum tiltækum ráðum, bæði á meðan á atvikinu stendur og eftir það

Leiðarljós Breiðabliks í allri meðferð slíkra mála eru:

  1. Tilkynningar geta borist munnlega eða skriflega, á fundi, í gegnum síma, bréfleiðis eða í tölvupósti.
  2. Tekið er á móti öllum tilkynningum án efasemda um upplifun þolanda.
  3. Við úrvinnslu og meðferð málsins skal gætt að réttmætum hagsmunum allra hlutaðeigandi sem koma að eða varða málið, meðal annars með viðeigandi samráði, og fyllsta trúnaðar gætt.
  4. Öll mál eru unnin af utanaðkomandi fagaðilum.

Unnið út frá eftirfarandi skilgreiningum hugtaka í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislega áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.