Jafnréttisstefna Breiðabliks

Jafnréttisstefna Breiðabliks miðar að því að tryggja að allir einstaklingar innan Breiðabliks eigi jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, uppruna, tungumálakunnáttu, húðlitar, holdafars eða stöðu að öðru leyti.

Jafnframt er henni ætlað að vinna gegn, einelti, áreitni, ofbeldi og hvers kyns ójafnrétti innan félagsins.

Hjá Breiðabliki er lögð áhersla á að hvetja öll börn og unglinga til að rækta séreinkenni sín og efla jákvæð samskipti sín á milli.

Leikreglur Breiðabliks í jafnréttismálum

  1. Jafnréttissjónarmiða skal gætt í allri starfsemi félagsins og tryggja að engar ákvarðanir stuðli að mismunun eða vegna kyns, kynhneigðar, uppruna, húðlitar, líkamsgerðar, holdafars eða stöðu að öðru leyti.
  2. Tryggja skal að kvenna- og karlaflokkar hafi alltaf sömu tækifæri og aðstöðu til æfinga.
  3. Tryggja skal að sömu ráðningakröfur séu gerðar til þjálfara hjá karla- og kvennaflokkum og að sömu laun séu greidd fyrir. Jafnframt stefnir félagið á að jafna kjörin að öðru leyti hjá kvenna- og karlaflokkum.
  4. Þrátt fyrir að íþróttir byggi oftast á skiptingu í karla- og kvennaflokka er fólk með hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá velkomið. Félagið einsetur sér að finna lausnir sem henta hverju sinni.
  5. Starfsfólk, sjálfsboðaliðar og iðkendur hafa ekki uppi orð eða athafnir sem líta má á sem mismunun, eða smánun, hvort heldur sem um ræðir einstaklinga eða hópa fólks, innan eða utan félagsins. Athugasemdir um litarhaft, talsmáta, kyn, kynhneigð, líkamsbyggingu eða annað i fari iðkenda, ættingja þeirra eða keppinauta eru ekki liðnar.
  6. Einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi verður ekki liðið.
  7. Bjóða skal upp á reglulega fræðslu fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða um jafnréttis- og fjölbreytileikamál, hvernig hægt sé að stuðla að góðum anda þar sem öllu félagsfólki getur liðið vel og forðast beina og óbeina mismunun í starfi félagsins.
  8. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og iðkendur leggja sig fram um að læra hvert af öðru, skilja ólíka stöðu fólks vegna samfélagsstöðu, setja sig í spor hvers annars og aðstoða hvert annað eftir fremsta megni.
  9. Breiðablik einsetur sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum, leggur áherslu á reglulega rýni á því sem gert er vel og hinu sem gera má betur og tekur fagnandi á móti ábendingum þess efnis.