fbpx

Merki Breiðabliks

Merki Breiðabliks

Merki Breiðabliks er alltaf notað með hvítum ramma þegar það liggur ofan á dökkum grunni.

Vector útgáfa: breidablik_PDF

Vector útgáfa svarthvítt: breidablik_SvHv_PDF

Litir merkisins:

Grænn sérlitur fyrir prent Pantone: 336

Grænn CMYK prentlitur C100 M0 Y65 K30.5

Rauður sérlitur fyrir prent Pantone: 1795

Rauður CMYK prentlitur C0 M100 Y100 K0

RGB litir (fyrir vefinn)

Grænnn sérlitur R12 G105 B85

Rauður sérlitur R206 G55 B40

Árið 1994 var núverandi merki félagsins, byggt á merkinu frá 1967, tekið í notkun eftir lokaða hugmyndasamkeppni. Sigurvegari var H:N markaðssamskipti. Hönnuðir núverandi merkis eru hönnuðirnir Ólöf Þorvaldsdóttir og Fanney Valgarðsdóttir.

Í greinargerð H:N Markaðssamskipta, sem er er með höfundarrétt á merkinu, segir að vísað sé í skjaldarflötinn eins og áður og kyndilinn sem tákn eldhuga og hugsjóna – með nútímalegri og aðgengilegri útfærslu. Sérstök áhersla var lögð á að fullt heiti félagsins Breiðablik kæmi fram í merkinu þar sem áður var UBK. Það olli nokkrum heilabrotum en tókst með nákvæmu leturvali. Flestir ef ekki allir Blikar eru sammála að einstaklega vel hafi tekist til varðandi útlit og hönnun á nýju merki Breiðabliks.

Breiðablik eignaðist svo annað merki árið 1967. Höfundur merkisins var Sigurður Geirdal en teiknað af Inga H. Magnússyni.

Fyrsta merki félagsins (1958) var hannað af Geir Magnússyni og síðar breytti Artúr Ólafsson merkinu lítilsháttar.

Í verslunum Byko og Málningu er hægt að fá græna Breiðablikslitinn blandaðann í málningu. Nafnið í litatölvunni er: Breiðabliksgrænn.

Reglugerð um merki Breiðabliks
1. gr. Merki Breiðabliks er eign félagsins og verndað að vörumerkjarétti. Markmið reglna þessara er að tryggja að samræmi sé í notkun merkis félagsins og að koma í veg fyrir misnotkun þess.

2. gr.
 Merkinu er ætlað að vera hluti af ímynd félagsins bæði inn á við og út á við. Þannig er merkinu ætlað að stuðla að samstöðu milli deilda og félagsmanna.
Merkið skal notað og borið þannig að ekki sé varpað rýrð á það.
Óheimilt er með öllu að nota eða láta gera skrumskældar útgáfur merkisins.

3. gr.
 Allir keppnis- og æfingabúningar á vegum félagsins skulu bera merki félagsins í samræmi við eftirfarandi ákvæði.

4. gr.
 Merki félagsins er hvítur kyndill með rauðum loga á grænum grunni. Fyrir neðan miðju kyndilsins er letrað BREIÐABLIK. Aðallitur keppnis- og æfingabúninga félagsins er grænn

5.gr.
 Merkið skal staðsett á vinstra brjósti bæði á keppnis- og æfingagöllum eða í samræmi við reglur sérsambands um félagsmerki ef þær kveða á um annað.

6. gr.
 Óheimilt er að nota merki félagsins í hvers konar atvinnuskyni eða auglýsingar án samþykki framkvæmdarstjóra félagsins.

7. gr.
 Merki félagsins skal birt á heimasíðu félagsins í öllum helstu formötum.

8. gr.
 Hver íþróttadeild skal fá samþykki aðalstjórnar félagsins á búningi sínum.

9. gr.
 Framkvæmdastjóri félagsins getur heimilað frávik frá reglum þessum í samræmi við hefðir sem skapast hafa í samskiptum félaga í viðkomandi keppnisgreinum. Þetta á sérstaklega við þegar litagrunnur æfinga eða keppnisgalla er óheppilegur fyrir merkið í sinni réttu mynd.

10. gr.
 Aðalstjórn Breiðabliks. er heimilt að láta framleiða vörur með merkinu, sem félagsmenn og aðrir geta keypt, svo sem barmmerki, bindisnælur, borðfána, penna o.s.frv. Framkvæmdastjóri getur heimilað deildum félagsins slíka framleiðslu.

11. gr.
 Aðalstjórn Breiðabliks er heimilt að takmarka og jafnvel banna einstökum deildum eða einstaklingum notkun merkisins ef notkun þeirra á því samrýmist ekki ákvæðum reglna þessara og ekki er orðið við tilmælum um úrbætur.

12. gr.
 Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi um notkun og meðferð merkisins.