Bikarmót Kraftlyftingasambands Íslands í klassískum kraftlyftingum fór fram á heimavelli Breiðabliks í Digranesi sl. helgi. Keppt var í öllum aldursflokkum, en Breiðablik sendi frá sér 11 keppendur í opnum flokki, 3 konur og 8 karla.
Breiðablik er í algjörum sérflokki þegar kemur að mótahaldi en uppsetning, frágangur og mönnun starfsfólks á mótinu að utanskildum dómurum var allt framkvæmt af grænu blóði. Keppt var á einum palli fyrir hádegi og tveimur eftir hádegi, en 69 keppendur rifu í lóðin þennan laugardaginn.
Keppt var um stigabikara karla og kvenna á IPF GL stigum, en tveir blikar, þau Alexander Örn Kárason og Kristrún Ingunn S. Sveinsdóttir hrepptu þá titla með 101.8 og 91.0 stigi. Var þetta titilvörn Kristrúnar, en hún tók einnig bikarinn heim í fyrra. Fjöldinn allur af Íslandsmetum féll, en tveir blikar, stöllurnar Kristrún og Kolbrún, bættu báðar Íslandsmet í hnébeygju. Kristrún með 138kg í -57kg opnum flokki kvenna og Kolbrún með 218kg í +84kg opnum flokki kvenna.
Breiðablik nældi sér einnig í fjöldann allan af medalíum, en Kristrún (-57kg kvk, open), Sigga (-69kg kvk, open), Kolbrún (+84kg kvk, open), Stefán (-93kg kk, open) og Alexander (-105kg kk, open) unnu til gullverðlauna. Manwin (-93kg kk, open), Davíð (-105kg kk, open) og Gabríel (+120kg kk, open) hrepptu silfurverðlaun. Jóhannes (-105kg kk, open) og Árni (+120kg kk, open) náðu bronsverðlaunum.
Hlekkur að frekari niðurstöðum mótsins má sjá hér https://results.kraft.is/meet/kraft-bikarmot-i-klassiskum-kraftlyftingum-2025
Innilega til hamingju með frábært mót Breiðablik!