Evrópumótið í kraftlyftingum með búnaði í öllum aldursflokkum fór fram í Pilsen, Tékklandi 2. – 11. maí. Breiðablik skipaði meirihluta landsliðshópsins í þessari ferð, en Ísland senti frá sér 7 keppendur, þar af 4 blika. Hjálmar Andrésson og Sóley Margrét Jónsdóttir fóru með í fylgisveit fyrir hönd blikanna. 

 

Fyrstur á pall var Pedro Oliveira í -83kg fl. kk. jr. Þetta var hans fyrsta erlenda búnaðarmót, en hann hafði gert það gott í klassískum kraftlyftingum hér áður en færði sig yfir í búnaðinn nýverið. Hann gerði sér lítið fyrir og endaði í 5. sæti með 647.5kg í samanlögðu. Bætti hann sitt eigið Íslandsmet í hnébeygju með 255kg og vann til bronsverðlauna með nýju Íslandsmeti í réttstöðulyftu með 262.5kg og tryggði sér þátttökurétt á HM unglinga með búnaði. 

 

Næstur var það Einar Rafn í -120kg fl. kk. jr. Þetta var einnig hans fyrsta erlenda stórmót, en hann hefur reynt fyrir sér á Norðurlandamóti unglinga. Einar átti frábæran dag og sópaði til sín medalíunum. Brons í hnébeygju með 325kg, brons í réttstöðulyftu með 260kg og silfur í samanlögðu með 732.5kg. Með þessum árangri tryggði Einar sér einnig þátttökurétt á HM unglinga með búnaði.

 

Agnes Ýr var fyrst kvenna á pallinn en hún keppir í +84kg fl. kvk. open. Eins og báðir unglingarnir okkar, þá var þetta fyrsta erlenda stórmót Agnesar. Agnes átti einnig góðan dag og endaði með brons í bekkpressu með 132.5kg, brons í réttstöðulyftu með 182.5kg og brons í samanlögðu með 525kg sem tryggði henni einnig þátttökurétt á HM open með búnaði.

 

Síðastur, en ekki síðstur var hann Guðfinnur Snær í +120kg fl. kk. open. Guffi er þaulreyndur keppandi með margra ára reynslu á stóra sviðinu. Guffi hreppti silfur í hnébeygju og sló sitt eigið Íslandsmet með 420kg, brons í bekkpressu með 310kg og silfur í samanlögðu með 1030kg.

 

Ótrúlegur árangur okkar blika á stóra sviðinu. 3 silfur og 7 brons í heildina. Breiðablik óskar þeim öllum innilega til hamingju! Geri aðrir betur.