Breiðablik átti þrjá öfluga keppendur á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem fór fram í Malaga, Spáni í síðustu viku. Til þeirra halds og trausts var Auðunn Jónsson, yfirþjálfari landsliðsins.
Fyrsti blikinn til að stíga á pall var Kristrún Sveinsdóttir sem keppti í -52kg flokki. Hún lyfti 132.5kg í hnébeygju, 72.5kg í bekkpressu og með persónulega bætingu, 152.5kg í réttstöðulyftu sem braut þar að leiðandi hennar eigið Íslandsmet. Samanlagt stóð hún uppi með 357.5kg sem skilaði henni 8. sæti í þyngdarflokknum.
Næstur á pall var Alexander Örn Kárason sem keppir í -93kg flokki. Hann lyfti 280kg í hnébeygju og jafnaði þar með sitt eigið Íslandsmet. Í bekkpressu rauf hann 200kg múrinn og braut sitt eigið Íslandsmet og skilaði 4. sæti í greininni, grátlega nálægt verðlaunapalli. Í réttstöðu endaði hann með 305kg sem skilaði honum samanlögðum árangri upp á 785kg, bæting á hans eigin Íslandsmeti um 5kg. Endaði hann í 11. sæti.
Á lokadegi mótsins lyfti reynsluboltinn Birgit Rós Becker, en hún keppti í -84kg flokki. Hún var að lyfta á sínu fyrsta alþjóðamóti eftir barnsburð og tók 167.5kg í hnébeygju, 100kg í bekkpressu og 175kg í réttstöðulyftu. Birgit var búin að ganga í gegnum örlítil meiðsl fyrir mótið sem hindraði hana að ná sínu besta fram á pallinum, en 442.5kg samanlagður árangur og 13. sæti í flokknum, flott niðurstaða miðað við erfiðar aðstæður.
Stutt er í næsta mót, en heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum fer fram eftir rúmar 10 vikur, þann 8. – 15. júní í Þýskalandi þar sem Blikar munu einnig eiga fulltrúa. Í millitíðinni er Breiðablik að halda bikarmótið í klassískum kraftlyftingum og sendir frá sér fjölda keppenda til atlögu.