Nú er lokið hinni geysisterku og vel skipuðu Skákhátíð MótX, sem var haldin af Skákfélaginu Hugin og Skákdeild Breiðabliks. Frísklega var teflt í stúkunni við Kópavogsvöll og margar bráðskemmtilegar skákir glöddu augað.
Í björtum sal glerstúkunnar var loftið þrungið dæmigerðri spennu lokaumferðar þriðjudaginn 27. febrúar síðastliðinn. Aðstæður voru þó óvenjulegar að því leyti að úrslitaskák Jóhanns Hjartarsonar og Helga Áss Grétarssonar í A-flokknum var ekki tefld á staðnum heldur sýnd á skjá að keppendum fjarstöddum. Ástæðan var sú að Jóhann þurfti af landi brott og skákin því tefld fyrir fram og úrslitum haldið leyndum. Voru leikir stórmeistaranna leiknir jafnóðum í réttri tímaröð til að tryggja að úrslitin hefðu ekki óeðlileg áhrif á ákvarðanatöku annarra keppenda í toppbaráttunni.
Við þessar aðstæður var ekki síður spennandi að fylgjast með skák þeirra Jóhanns og Helga en þó að þeir hefðu verið á staðnum í eigin persónu. Þeir Jóhann og Helgi, sem voru efstir og jafnir fyrir lokaumferðina, sættust loks á skiptan hlut eftir langa og stranga vörn Helga. Sá síðar nefndi lét reyndar svo um mælt eftir skákina að sér liði yfirleitt best í afleitum stöðum og hann hefði því vísvitandi komið sér í vandræði til þess að fá eitthvað út úr skákinni!
Á öðru borði kom Hannes Hlífar Stefánsson Björgvini Jónssyni á óvart í byrjun og eftir að kóngssókn Suðurnesjamannsins rann út í sandinn náði Hannes smám saman frumkvæðinu og knésetti Björgvin í vel útfærðri skák. Á þriðja borði tókust Þröstur Þórhallsson og Jón Viktor Gunnarsson á í hörkuskák þar sem lengi var óljóst hvor stæði betur. Úr varð tímahrak þar sem Þröstur tefldi til vinnings en misreiknaði sig aðeins í endataflinu og varð að leggja niður vopnin.
Úrslitin í A flokki Skákhátíðar MótX 2018 urðu því þau að þeir Jóhann Hjartarson, Helgi Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Jón Viktor Gunnarsson komu jafnir í mark með 5 vinninga af 7 möguleikum, en Jóhann varð efstur á stigum. Sjónarmun þar á eftir varð svo Hjörvar Steinn Grétarsson með 4,5 vinninga.
Keppni í flokki Hvítra hrafna var afar jöfn allt frá fyrstu umferð. Í lokaumferðinni hjá þessum gömlu kempum sem eru enn ungir í anda, sömdu þeir Jón Þorvaldsson og Jónas Þorvaldsson fljótlega um skiptan hlut en Júlíus Friðjónsson sigraði Braga Halldórsson eftir nokkrar sviptingar. Bragi stóð lengst af betur í skákinni en lék af sér drottningunni í tímahraki og því fór sem fór. Friðrik Ólafsson, sem átti að tefla við Björn Halldórsson, forfallaðist og varð því miður að gefa síðustu skák sína í mótinu. Friðrik setti afar sterkan og skemmtilegan svip á Skákhátíðina og er þessum heiðursmanni og stafnbúa íslenskrar skáksögu þökkuð þátttakan sérstaklega.
Hlutskarpastur í flokki Hvítra hrafna 2018 varð Júlíus Friðjónsson með 3,5 vinninga af 5 mögulegum, annar varð Jón Þorvaldsson með 3 vinninga en þeir Júlíus voru taplausir á mótinu. Í þriðja sæti varð Bragi Halldórsson.
Í B-flokknum tefldu flestir efnilegustu skákmenn landsins í bland við eldri og reyndari skákmenn. Hart var barist í lokaumferðinni í flokknum.
Siguringi Sigurjónsson tefldi mjög vel í mótinu og endaði í efsta sæti þar sem hann varð hærri á stigum en Hilmir Freyr Heimisson sem var jafn honum með 5,5 vinninga af 7 mögulegum. Þeir tveir unnu sér rétt til taflmennsku í A-flokknum á næsta ári. Aron Þór Mai tók 3ja sætið með 5 vinninga.
Baráttan um nafnbótina Unglingameistari Breiðabliks var spennandi. Birkir Ísak Jóhannsson stóð að lokum uppi sem sigurvegari eftir stigaútreikning.