Vínrauðir afmælisblikar
Keppt í afmælistreyjum á 70 ára afmæli Breiðabliks
Meistaraflokkar Breiðabliks munu á næstu dögum spila hvorn sinn heimaleikinn í vínrauðum afmælistreyjum. Báðir leikir eru gegn Fylki; fyrst karlarnir á sunnudag og svo konurnar 10. október næstkomandi. Breiðablik fagnar því í ár að 70 ár eru síðan félagið var stofnað þar sem þá hét Kópavogshreppur en félagið er nú er fjölmennasta íþróttafélag landsins.
Afmælisár
Hátíðahöld vegna afmælisins hófust snemma árs, en 12. febrúar 1950 er formlegur stofndagur Breiðabliks. Græni liturinn hefur fylgt félaginu nánast frá upphafi en meistaraflokkur karla lék þó um hríð í vínrauðum treyjum og hvítum buxum. Til eru skemmtilegar ljósmyndir frá þessum tíma, meðal annars frá keppnisferð til Siglufjarðar árið 1967.
Það ár voru íbúar Kópavogs um 10 þúsund talsins, sem er svipað og í Árborg í dag. Knattspyrnudeild Breiðabliks var 10 ára gömul en ennþá voru þrjú ár þar til liðið kæmist í fyrsta sinn í deild þeirra bestu. Heimildum ber ekki alveg saman um það hvers vegna liðið skrýddist rauðu á þessum árum. Ein tilgátan er að skortur hafi verið á grænu klæði í landinu, önnur að græni búningurinn hafi þótt of líkur bláum lit Fram-búningsins, en Breiðablik keppti til úrslita við Fram um sigur í 2. deild árið 1966, ári fyrir Siglufjarðarferðina.
Flautað til leiks strax eftir messu
Þá var síldarævintýrið enn í algleymi þar nyrðra. Það var þó ekki eins og bæjarbúar gerðu ekki annað en að veiða og salta síld því leikmenn Breiðbliks máttu doka við í brekkunni ofan við fótvöllinn í smástund þennan sunnudagsmorgunn á Sigló þar til messuhaldi lyki. Ekki þótti við hæfi að spilaður væri fótbolti á vellinum milli kirkjunnar og Allans á messutíma.
Í markinu hjá Breiðabliki í leiknum var Logi Kristjánsson sem síðar átti eftir að verða kjörinn formaður aðalstjórnar Breiðabliks og sæmdur heiðursmerki félagsins á sextugsafmæli hans, árið 2001. Logi klæddist jafnan gulri markmannspeysu og hvítum eða bláum buxum. Sú verður líka raunin í afmælisleiknum á sunnudaginn og sögunni þannig sýndur sómi.
Blikahornið tók viðtal við Loga í tilefni 70 afmælisins og þú getur séð það með því að smella hér.
Keppnistreyjur-heppnistreyjur?
Í liðinu sem keppti nyrðra má sjá marga goðsögnina í knattspyrnusögu Kópavogs en á næstu árum átti liðið eftir að vinna 2. deildina 1970 og komast í bikarúrslitin á móti Víkingi árið 1971. Félagið eignaðist sinn fyrsta landsliðsmann en stórsenterinn Guðmundur Þórðarson var valinn í liðið árið 1970, áður en Blikarnir komust í efstu deild. Heiðursblikinn Guðmundur átti síðar eftir að þjálfa fjölda flokka hjá Breiðabliki, hvorttveggja í karla- og kvennaboltanum og var þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fyrsta landsleiknum, við Skota árið 1981.
Hér má sjá viðtal sem Blikahornið tók við Guðmund nú á afmælisárinu.
Norðurlandaferð
Það var annars meiri ferðahugur í fótboltamönnum sumarið 1967 en nú í veirutíðinni því þessir vösku Blikar fóru til Noregs og Danmerkur eftir Siglufjarðarferðina góðu. Fyrsti leikurinn var á móti Larvik og vannst hann 1-2. Sérstaklega góður rómur var gerður að frammistöðu leikinna framherja Breiðabliks og markmannsins. Svo var spilað við Sandefjord, sem nokkrir íslendingar hafa síðar spilað með. Sá leikur tapaðist 4-2 en það var einmitt áðurnefndur Guðmundur sem skoraði bæði Blikamörkin eftir að liðið hafði lent undir 0-4.
Stysta leigubílaferð sögunnar
Síðan lá leið félaganna til Danmerkur og leikur á móti Hjörring á Jótlandi tapaðist naumlega, 4-3. Þetta var einmitt skömmu eftir frægan landsleik Íslendinga við Dani á Parken sem enginn kærir sig um að muna hvernig fór en allir muna samt. Þar í bænum gerðist það að einn ferðafélaganna gleymdi fleiru en 14-2 leiknum því hann settist upp í leigubíl síðla kvölds og bað bílastjórann vinsamlegast að aka sér að Hótel Fönix þar í plássinu. Bílstjórinn sagði það lítið mál, fór út úr bílnum, opnaði afturdyrnar hinum megin frá því sem félagi okkar settist inn og bað hann að gjöra svo. Viti menn, Hótel Fönix blasti við. -Það fer ekki sögum af gjaldinu.
Afmælisárið heldur áfram
Hátíðahöld á afmælisárinu hófust strax í febrúar með mikilli veislu í Smáranum en vitaskuld hefur veiran sett strik í reikninginn frá í vor. Nú er blásið í afmælislúðurinn á ný með þessum skemmtilega hætti og við vonum að sem flest hafi kost á að sjá meistaraflokkana okkar keppa í hátíðarbúningunum.
Leikirnir eru þessir:
Mfl. karla: Breiðablik-Fylkir – Kópavogsvöllur – sunnudaginn 4. október kl. 19:15
Mfl. kvenna: Breiðablik-Fylkir – Kópavogsvöllur – sunnudaginn 11. október kl. 14:00
Eiríkur Hjálmarsson