Afmælishátíð Breiðabliks var haldin 10. maí sl. í tilefni þess að félagið fagnar 75 ára afmæli á árinu. Dagurinn hófst á sögugöngu þar sem félagsaðstaða Breiðabliks frá upphafi var skoðuð og var í framhaldinu haldið í Smárann þar sem heiðursverðlaun voru veitt.
Þrír voru gerðir að Heiðursblikum, sem er æðsta viðurkenning félagsins og er veitt fyrir framúrskarandi starf í þágu félagsins. Það voru þeir Guðmundur G. Sigurbergsson, Hannes Strange og Hákon Gunnarsson sem eru allir sannir Heiðursblikar.
Aðalheiður María Vigfúsdóttir, Heimir Snær Jónsson, Margrét Skúladóttir Sigurz og Sunna Guðmundsdóttir voru öll gerð að Gullblikum fyrir sitt óeigingjarna starf fyrir félagið. Þá voru Silfurblikarnir tveir en Kristinn Jóhann Ólafsson og Steinþóra Þórisdóttir voru gerð að Silfurblikum fyrir sitt framlag til félagsins.