Eyjólfur Héðinsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, hefur verið ráðinn sem deildarstjóri meistaraflokka Breiðabliks. Eyjólfur hefur verið hluti af þjálfarateymi meistaraflokks karla frá árinu 2022. Fyrst sem þjálfari með sérstaka áherslu á unga leikmenn og síðar sem aðstoðarþjálfari. Reynsla hans og innsýn sem aðstoðarþjálfari og vinna hans með ungum leikmönnum mun án efa nýtast afar vel á þessum nýja vettvangi og styrkja starf meistaraflokkanna enn frekar. Eyjólfur mun hefja störf í nýju starfi að fullum krafti þegar Íslandsmótinu lýkur.

,,Það er mikill fengur að fá Eyjólf í þetta starf. Hann þekkir vel til innan félagsins og kemur inn með mikla fagmennsku og reynslu sem þjálfari og leikmaður bæði hérlendis og erlendis. Ráðning Eyjólfs er liður í áframhaldandi þróun meistaraflokkana og mun hann leika lykilhlutverk í framtíðaráformum félagsins.“ Sagði Tanja Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Eyjólfur tekur við af Karli Daníel Magnússyni, sem hefur látið af störfum hjá Breiðablik, og þökkum við honum fyrir sitt ómetanlega framlag til félagsins á sínum starfstíma.

,, Ég hlakka til að takast á við starf deildarstjóra meistaraflokka Breiðabliks. Auðvitað mun ég sakna þess að sinna starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla, en á sama tíma er tilhlökkun að takast á við ný og spennandi verkefni“ segir Eyjólfur.