Þorleifur Einar Leifsson átti í einu orði sagt stórkostlegt mót á Smáþjóðaleikunum í Andorra og jú, jú þið þekkið þetta – við erum að springa úr stolti. Þorleifur átti frábæra stökkseríu í langstökkskeppninni og bætti sig um heila 74 cm utanhúss með stökki upp á 7,26 m sem tryggði honum 1. sætið og gullið góða. 

Þorleifur bætti silfri í safnið þegar hann lenti í 2. sæti í 110 m grindahlaupi karla á tímanum 14,74 sek. en þetta er önnur stórbæting hjá Þorleifi sem átti fyrir 15,48 sek. frá sumrinu 2023. 

Til að fullkomna þrennuna landaði Þorleifur 3. sæti í 4×100 m boðhlaupi karla ásamt félögum sínum í íslensku sveitinni en þeir komu í mark á tímanum 41,17 sek. Auk Þorleifs skipuðu sveitina þeir Sæmundur Ólafsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Kristófer Þorgrímsson.

Við óskum Þorleifi okkar innilega til hamingju með stórkostlegan árangur og viljum nota tækifærið og senda íslenska landsliðshópnum, þjálfurum og fylgdarliði okkar bestu kveðjur. Áfram frjálsar, áfram Breiðablik og áfram Ísland!image0.pngimage1.jpegimage2.jpegimage3.jpeg