Í gær, laugardaginn 10.mars, fór fram mjög sterkt sænskt katamót „Swedish Kata Trophy“ í Stokkhólmi Svíþjóð. Karatesamband Íslands var með helsta landsliðsfólk sitt í kata á mótið og í liðinu voru þrír félagar úr Breiðablik, þau Svana Katla Þorsteinsdóttir, Arna Katrín Kristinsdóttir og Tómas Pálmar Tómasson sem er nýliði í landsliðinu.
Af okkar fólki keppti Tómas Pálmar fyrst í flokki 14-15 ára pilta en 25 keppendur voru skráðir til keppni. Tómas fékk mjög sterkan andstæðing í fyrstu umferð, Alvin Karlstrand frá Svíðþjóð, Alvin vann Tómas naumlega 3-2. Alvin endaði sem sigurvegari í flokknum og því fékk Tómas uppreisn og rétt til að keppa um 3ja sætið. Í uppreisn mætti hann Janni Hämäläinen frá Finnlandi, Tómas missti jafnvægið í lendingu úr stökki í sinni kata og tapaði viðureigninni naumlega 2-3, Janni endaði svo í 3ja sæti. Tómas Pálmar endaði í 9.sæti í flokknum sem er mjög gott fyrir hann í sinni fyrstu landsliðsferð.
Í kvennaflokki byrjaði Arna Katrín á að keppa, mætti Emilie Le Karlskoga frá Svíþjóð í fyrstu umferð þar sem Arna beið lægri hlut. Emilie tapaði í næstu umferð fyrir sigurvegara flokksins og því fékk Arna ekki neina uppreisn, þess má geta að Emilie vann unglingaflokkinn fyrr um daginn. Svana Katla mætti Tilda Horvath í fyrstu umferð og vann hana örugglega 5-0. Í annarri umferð mætti Svana sænsku landsliðs konunni Smilla Hagman, Smilla lagði Svönu 5-0 sem og endaði Smilla í 2.sæti í þessum flokki. Svana fékk því uppreisn um réttinn á að keppa um 3ja sætið. Í fyrstu umferð uppreisnar mætti Svana Elena Kim sem hún vann 5-0, svo í 2.umferð uppreisnar mætti Svana Emma Tran og beið þar lægri hlut 2-3. Svana Katla endaði því í 7.sæti í þessum flokki þar sem um 30 keppendur mætti til leiks.
Á meðfylgjandi mynd má sjá landsliðsfólkið úr Breiðablik, frá vinstri Tómas Pálmar, Arna Katrín og Svana Katla.