Um helgina fór fram fjölmennt karatemót í Söborg, Danmörku, Gladsaxe Karate Cub 2018. Mótið var bæði laugardag og sunnudag en í heildina voru um 700 keppendur skráðir til leiks. Svana Katla Þorsteinsdóttir landsliðskona úr Breiðablik tók þátt og keppti í kata kvenna þar sem 12 keppendur mættu. Í fyrstu umferð mætti Svana Katla Katherine Strange og vann Svana hana 4-1 sem og keppandann í næstu umferð Louise Jørgensen. Í undanúrslitum mætti Svana Katla Freja Sofie Katborg í hörkuviðureign þar sem Freja vann 3-2, Freja fór því í úrslit og lenti í 2.sæti. Svana Katla fékk því uppreisn og rétt til að keppa um 3ja sætið. Þar mætti hún Tine Olsen og vann hana örugglega 5-0, bronsið var því Svönu. Það var svo Michella Lauritsen sem vann flokkinn.

Næstu dagar fara í æfingar hjá Svönu úti í Danmörku og Svíþjóð, svo mun hún ásamt öðrum félögum sínum í Breiðablik, taka þátt í karatemóti í Svíþjóð, Gautaborg Open, laugardaginn 2.júní næstkomandi.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Svönu Kötlu á verðlaunapalli og með bronsverðlaun sín.