Æfingar í öllum flokkum eru að hefjast á ný hjá byrjendum, þeim sem eru lengra komnir og öllum þar á milli. Í vetur verður eftir sem áður lögð áhersla á fjölbreyttar æfingar, styrktarþjálfun, þátttöku í mótum heima og erlendis, skemmtun af ýmsu tagi og margt, margt fleira.
Karate er íþrótt fyrir alla, óháð aldri og er næring fyrir bæði líkama og sál. Karate er einstaklingsíþrótt æfð í blönduðum hópum hver og einn á sínum hraða. Í karate er lögð áhersla á sjálfstjórn, viljastyrk og framkomu – allir geta stundað karate og það er aldrei of seint að byrja (frír prufutími).
Stundartaflan er komin á netið og er hún fjölbreyttari en áður, fyrir utan hefðbundnar æfingar munum við einnig bjóða upp á styrktaræfingar, kata-keppnisæfingar, kumiteæfingar fyrir eldri og yngri krakka.
Blikavagninn og frístundastyrkir
Tímasetningar á byrjendaæfingum barna eru miðaðar við ferðir Blikavagnsins og geta því byrjendur komið sér sjálfir á æfingar. Æfingagjöldum er stillt í hóf og hægt er að nýta frístundastyrki sveitafélaga til að niðurgreiða gjöldin.
NÝTT! Karateskólinn fyrir krakka fædd 2013
Í vetur verðum við með sérstakan Karateskóla sem er hugsaður fyrir krakka á síðasta ári í leikskóla. Lögð verður áhersla á skemmtun og leiki með karate áherslum. Það verður ýmislegt brallað og krökkum kennd undirstöðuatriði í karate undir öruggri handleiðslu skemmtilegra þjálfara.
Upplýsingar og fróðleik má finna á heimasíðu deildarinnar www.breidablik.is eða á Facebook (Karatedeild Breiðablik) og svo má alltaf senda okkur tölvupóst á karate@breidablik.is. Það kostar ekkert að prófa, bara mæta.