Hressir allir á höfnu ári
heilsist ykkur köppum vel.
Una megið fjarri fári
flétta saman hugarþel.

Pálmi R. Pétursson

 

Sælir skákmenn og Breiðabliksfólk og gleðilegt ár!

Það er ekki amalegt að hefja árið í björtum sölum Breiðabliksstúku. Þar fer nú fram MótX skákhátíðin 2019, Gestamót Hugins og Skákdeildar Breiðabliks. Hátíðin var sett með pompi og prakt þegar Hilmar Viggósson lék fyrsta leik í skák Hjörvars Steins Grétarssonar og Vignis Vatnars Stefánssonar.

Að venju er mótið afskaplega vel skipað. Teflt er í tveimur flokkum, A og B. Í A flokki, flokki meistara, er valinn maður í hverju rúmi. Meðalstig keppenda eru yfir 2.300 ELO sem er með því hæsta sem þekkist hér á landi  í móti með þessu sniði. Þar sitja hvorki fleiri né færri en 17 titilhafar að tafli eins og mótstaflan ber með sér. Hvert glæsimennið á fætur öðru. Þetta mót slær því enn eitt metið og hefur alla burði til þess að rata í skáksögubækurnar. Í B flokki er blanda ungra meistara og eldri og reyndari. Íslandsmeistarar ungmenna í röðum, ólympíufarar, ung ljón, framkvæmdastjórar, kennarar, Norðlendingar og efnilegar skákkonur.

Áður en blásið var í herlúðra fóru forsprakkar mótsins yfir sviðið í stuttum tölum. Halldór Grétar Einarsson og Jón Þorvaldsson, sem jafnframt er guðfaðir mótsins og lífgjafi. Sá síðarnefndi hélt stutta og skemmtilega tölu þar sem prímata og líffærafræði bar á góma. Hlógu margir upphátt þegar Jón sagði frá því að ákveðin tegund prímata hefði skorið sig úr fyrir hálfri annarri milljón ára. Þegar Jón spurði hvort gestir vissu hvað hefði valdið því að þeir náðu forskoti á frændur sína á þessum tíma, tuldraði einn þekktur skákmaður fyrir munni sér að hann vissi ekki að skákin væri svona gömul!

Rétt er víst að þá hófu menn að elda ket, formelta það utan líkamans, þannig að meiri tími og orka gat farið í að hugsa og efla samskipti við aðra frummenn. Þarna varð meira að segja til smá rými fyrir afþreyingu, leik sem svo aftur eflir alla dáð og andlegt atgervi ef rétt er á haldið. Kannski var skákmaðurinn þarna fram kominn, homo skakiens, sem margir telja raunar að geti verið týndi hlekkurinn.

Jón fór yfir sögu mótsins og sagði það afrakstur samtala sem hann átti við skákmenn um það hvers konar skákmót þeim hugnaðist best. Hér væri afrakstur þessara samtala og vitaskuld ómældrar vinnu með dyggri aðstoð styrktaraðila. Vinsældir mótsins kæmu því í sjálfu sér ekki á óvart. Jón þakkaði aðal stuðningsaðila mótsins, MótX sérstaklega fyrir myndarlega aðkomu að mótinu. Hilmar Viggósson var fulltrúi fyrirtækisins og setti mótið eins og áður var vikið að. Jón gat þess að Hilmar væri sjálfur sterkur skákmaður og skákgenin góðu hefðu erfst til sonar hans, Viggós Einars Hilmarssonar, eins forvígismanna MótX, og að þær erfðir kæmu sér sjálfsagt vel við skipulagningu og rekstur fyrirtækis.

Í fyrstu umferð í A-flokki áttust við á efstu borðum:

Hjörvar Steinn Grétarsson og Vignir Vatnar.

Margar fórnir og miklar flækjur einkenndu skák Hjörvars Steins og Vignis Vatnars. Skákin var rússibani allan tímann og teflendur hristu stöðugt fram úr erminni flotta og óvænta leiki.  Kóngstöðurnar voru mjög ótryggar hjá hvorumtveggju en eftir að Hjörvar náði að véla drottninguna af Vigni Vatnari varð ljóst hvert stefndi.

Hvítur á leik, hverju myndi þú leika lesandi góður ?

Bárður Örn Birkisson og Jóhann Hjartarson

Jóhann náði snemma frumkvæðinu með Rh5-f4 færslu. Bárður svaraði með því að fórna peði á drottningarvæng. Færin fyrir peðið dugðu ekki og tefldi Jóhann skákina mjög vel og örugglega. Þegar svo svartur féll ekki í gildru í 41. leik, en vann aðþrengdan riddara þess í stað, lagði Bárður Örn niður vopnin.

 

Jón Viktor Gunnarsson og Baldur Kristinsson

Baldur kom með óvænta og öfluga skiptamunarfórn í 14. leik. Jón Viktor stóðst áhlaupið, en svartur var með öfluga biskpa og tefldi auk þess mjög virkt. Smám saman fækkaði peðunum og þrátt fyrir að Jón Viktor næði að króa kóng Baldurs af úti á h-línunni var ekkert mát í stöðunni. Að lokum var Baldur með tvö peð og biskup á móti hrók og peði hjá Jóni Viktori og jafntefli samið því sigurlíkurnar voru að engu orðnar.

 

Magnús Pálmi Örnólfsson og Bragi Þorfinnsson

Bragi át peð á miðborðinu þrátt fyrir að öll spjót stæðu að kóngstöðu hans. Hann komst upp með það og eftir 25 leiki virtist hann vera að sigla þessu örugglega áfram til sigurs. En Magnús Pálmi svaraði með virkri og öflugri vörn og átti jafnteflið fyllilega skilið.

 

Sjá önnur úrslit í A og B flokkum í yfirliti hér að neðan.

Meðal óvæntra úrslita var sigur Björgvins Víglundssonar á Birni Þorfinssyni og sigur Stefáns Orra á Jóhönnu Björg.

A-flokkur:

Nafn Stig   Nafn Stig
GM Gretarsson Hjorvar Steinn 2560 1 – 0 FM Stefansson Vignir Vatnar 2248
CM Birkisson Bardur Orn 2233 0 – 1 GM Hjartarson Johann 2530
IM Gunnarsson Jon Viktor 2462 ½ – ½ Kristinsson Baldur 2217
Ornolfsson Magnus P. 2201 ½ – ½ GM Thorfinnsson Bragi 2438
GM Arnason Jon L 2432 1 – 0 Edvardsson Kristjan 2190
Ingvason Johann 2175 ½ – ½ GM Thorhallsson Throstur 2425
IM Kjartansson Gudmundur 2424 1 – 0 Halldorsson Gudmundur 2174
Kristjansson Atli Freyr 2174 ½ – ½ IM Thorsteins Karl 2421
IM Thorfinnsson Bjorn 2414 0 – 1 Viglundsson Bjorgvin 2092
Sigurjonsson Siguringi 2080 0 – 1 FM Einarsson Halldor Gretar 2272

 

B-flokkur:

Nafn Stig   Nafn Stig
Einarsson Oskar Long 1743 0 – 1 Hardarson Jon Trausti 2137
Jonsson Gauti Pall 2070 1 – 0 Heidarsson Arnar 1740
Magnusdottir Veronika Steinunn 1740 0 – 1 Arnarsson Hrannar 2028
Bjornsson Eirikur K. 1955 1 – 0 Gudmundsson Gunnar Erik 1693
Luu Robert 1687 0 – 1 Davidsson Oskar Vikingur 1941
Baldvinsson Loftur 1925 1 – 0 Haile Batel Goitom 1549
Davidsson Stefan Orri 1530 1 – 0 Johannsdottir Johanna Bjorg 1924
Johannsson Birkir Isak 1910 1 – 0 Alexandersson Orn 1512
Gunnarsson Baltasar Mani 1355 ½ – ½ Finnbogadottir Tinna Kristin 1889
Andrason Pall 1833 1 – 0 Sigfusson Ottar Orn 1275

 

Teflt er á þriðjudagskvöldum og hefst taflmennska kl. 19:30. Skákstjóri er Vigfús Vigfússon.

Heitt er á könnunni og bruðerí af bestu sort og áhugasamir hvattir til að líta inn.

Skákdeild Breiðabliks og Huginn efla samstarf sitt

Skákdeild Breiðabliks og Skákfélagið Huginn hafa átt farsælt samstarf um MótX skákhátíðina (Gestamótið) og  ákváðu í byrjun desember að stórauka samstarfið með sameiginlegu unglinga- og innanfélagsstarfi.

Barna- og unglingaæfingar verða sameinaðar við Kópavogsvöll og umfang þjálfunar yngstu iðkenda (um 10 ára og yngri) aukið með hugmyndum um fleiri æfingastaði í nærumhverfi þeirra. Einnig verður áframhaldandi stuðningur við skákkennslu í skólum á höfuðborgarsvæðinu.