Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir setti Íslandsmet á Bauhaus Junioren Gala í Mannheim í Þýskalandi. Mótið er haldið árlega og er mjög sterkt alþjóðlegt unglingamót þar sem yfir 400 keppendur taka þátt frá löndum víðsvegar um heiminn. Lágmörk fyrir mótið eru stíf en átta Íslendingar tóku þátt á mótinu.
Birna Kristín Kristjánsdóttir setti Íslandsmet í aldursflokki 16-17 ára í langstökki. Hún stökk 6,12 metra og bætti þar með eigið aldursflokkamet sem var 6,10 metrar frá því síðasta sumar. Birna endaði í tíunda sæti í langstökkskeppninni.
Birna Kristín var meðal hlaupara í 4x100m boðhlaupi ásamt Tiönu Ósk Whitwort, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Þórdísi Evu Steinsdóttir. Þær settu aldursflokkamet í gær þegar þær fóru á 45,75 sekúndum. Í dag náðu þær ekki eins hröðu hlaupi, fóru á 45,83 sekúndum og enduðu í sjönda sæti.