Eins og flestum er kunnugt samþykkti stjórn KSÍ á fundi sínum þann 30. október að hætta keppni í Íslands- og bikarkeppnum karla og kvenna. Þessi samþykkt kemur í kjölfar hertra sóttvarnarreglna sem banna allt íþróttastarf a.m.k. til 17. nóvember. Ákvörðun stjórnar KSÍ er hvorki einföld né léttvæg og um hana eru skiptar skoðanir. Hún er þó að mati þess sem hér ritar tekin af ábyrgð og yfirvegun í afar þröngri stöðu.
Niðurstaðan ræðst því af ákvæðum reglugerðar KSÍ um sértækar ráðstafanir vegna COVID sem samþykkt var í júlí síðastliðnum. Bikarkeppnum karla og kvenna er hætt og enginn bikarmeisari krýndur árið 2020. Reiknireglan sem notuð er tryggir okkur Blikum Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki kvenna og 4. sætið í meistaraflokki karla.
Ég vil nota tækifærið hér og óska meistaraflokki kvenna til hamingju með Íslandsmeistartitilinn og glæsilegan árangur í sumar. Þrátt fyrir undarleg mótslok hafði liðið þegar nánast tryggt sér titilinn enda sýndi liðið frábæra spilamennsku í sumar og á köflum ákveðna yfirburði í Pepsi Max deild kvenna. Við megum líka una sátt við 4. sætið hjá meistaraflokki karla sem tryggir okkur Evrópusæti næsta ár. Þar var unnið með nýjar og spennandi áherslur í sumar sem byggja undir og gefa von um enn betri árangur næsta sumar.
Ljóst er að mótslokin í ár eru engin óskaniðurstaða fyrir knattspyrnuhreyfinguna á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að allir þeir sem teljast til þátttakenda í mótinu, beint og óbeint, hafi átt sér þá ósk að unnt væri að ljúka mótunum á hefðbundinn hátt og að endanleg niðurstaða þeirra yrði fengin á knattspyrnuvellinum. Það var óskaniðurstaða okkar Blika og ólum við þá von í brjósti okkar alveg þar til yfir lauk.
Heimsfaraldurinn sem einkennt hefur árið 2020 hefur skapað mikið álag á knattspyrnusamfélagið á Íslandi. Við fullkomnar óvissuaðstæður hafa félögin í hreyfingunni og forysta knattspyrnumála þurft að feta slóðina frá því í vor skref fyrir skref. Þótt stundum hafi verið tekist á í þeirri umræðu er það mín skoðun að hreyfingin hafi sýnt samtakamátt, sveigjanleika og útsjónarsemi við að gera allt sem í hennar valdi stóð til að halda knattspyrnustarfinu gangandi. Þar lögðust allir á eitt og álagið á köflum gríðarlegt. Sjálfboðaliðar félaganna, starfsmenn þeirra og KSÍ, þjálfarar og margir fleiri eiga miklar þakkir skildar og í þeim félagsauði býr mikill styrkur. Yfir því getum við glaðst og tekið það með okkur inn í framtíðina.
Orri Hlöðversson
Formaður knattspyrnudeildar