Barátta, spenna og dramatík á MÍ 11-14 í frjálsum
Meistaramót 11-14 ára innanhúss fór fram í Laugardalshöll 10.-11. febrúar og voru 270 keppendur skráðir til leiks frá 17 félögum víðs vegar af landinu. Blikar áttu hvorki fleiri né færri en 45 keppendur og óhætt að segja að krakkarnir okkar hafi sýnt stórkostlegan baráttuanda frá upphafi til enda. Sex mótsmet voru sett á mótinu og um 720 persónuleg met voru bætt, en eitt mótsmetanna setti Blikinn Hekla Þórunn Árnadóttir í flokki 11 ára stúlkna þegar hún hljóp 400 m á 70,85 sek. Blikar unnu alls 8 gull, 7 silfur og 10 brons og urðu Íslandsmeistarar í þremur flokkum hjá 11, 12 og 13 ára stúlkum. Eftir mikla baráttu, spennu og dramatík fór það svo að FH-ingar urðu Íslandsmeistarar félagsliða með 524,5 stig, Breiðablik hafnaði í öðru sæti rétt á eftir með 518 stig og ÍR-ingar hrepptu þriðja sætið með 379,5 stig.
Að okkar mati eru Blikarnir sannir sigurvegarar þessa móts en liðsheildin, baráttuandinn, gleðin og krafturinn sem einkenndi hópinn var áþreifanlegur og Blikahjartað stækkaði um heilan helling á að fylgjast með þessum stórkostlegu krökkum leggja líf og sál í harða keppni frá upphafi til enda.