Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur samið við feðgana Hrafn Kristjánsson og Mikael Mána Hrafnsson sem þjálfara meistaraflokks karla fyrir næsta leiktímabil, einnig mun Mikael taka við sem yfirþjálfari yngri flokka.

Þjálfaraferill Hrafns hefur spannað þó nokkuð mörg ár, lið og landshluta. Fyrir yfirstandandi leiktíð tók hann við 11. og 12. karla hjá Breiðablik en bæði lið hafa staðið sig með stakri prýði í vetur.

Mikael Máni er uppalinn Bliki sem hefur æft og leikið upp alla yngri flokka félagsins. Síðustu ár hefur hann í auknum mæli tekið að sér verkefni í þjálfun hjá félaginu og hefur með tímanum með áhuga sínum og dugnaði skipað sér sess meðal efnilegustu þjálfara landsins.

Aðspurður segir Hrafn þá feðga spennta fyrir samstarfinu og komandi tímabili: „Það má segja að þetta skref okkar sé eðlilegt framhald á okkar ferðalagi saman í körfuboltanum. Þetta samstarf er í raun fyrir löngu hafið, Mikael Máni var byrjaður að aðstoða mig, veita mér ráð og styðja við mig sem þjálfara fyrir nokkrum árum síðan. Við lærum af hvorum öðrum daglega sem er mjög gefandi fyrir okkur báða. Við njótum góðs af starfi Ívars Ásgrímssonar síðustu tímabil með unga leikmenn félagsins sem ættu að vera spenntir fyrir komandi tímabili í 1. deild.“

Mikael Máni er spenntur fyrir verkefninu og komandi tímabili: „Ég er fyrst og fremst þakklátur og spenntur fyrir þessu næsta skrefi mínu sem þjálfara. Ég á Ívari Ásgrímssyni mikið að þakka fyrir þá trú sem hann hafði á mér fyrir síðasta tímabil og fyrir það sem ég hef lært af honum síðustu ár. Á næsta ári leggjum við upp með tvíþætt markmið. Það er ljóst að Breiðablik mun mæta í hvern einasta leik til að sigra en á sama tíma viljum við gefa okkar ungu leikmönnum rými og tækifæri til að reyna sig á vellinum og þróa sig áfram í Smáranum”.

Körfuknattleiksdeild Breiðablik býður Hrafn og Mikael velkomna til nýrra starfa hjá félaginu.

Áfram Breiðablik