Hjólreiðadeild Breiðabliks hélt enn á ný gravelmótið Grefilinn laugardaginn 10. ágúst 2024. Hátt í 180 manns voru skráðir til leiks en eitthvað var um forföll, aðallega vegna „haust“veikinda. Batakveðjur til þeirra sem komust ekki.
Allt frá ræsingu var útlit fyrir æsispennandi endasprett í 200 km Pro/Elite karlaflokki, og fór það svo að endasprettur var milli þeirra Ingvars Ómarssonar (Breiðablik) og Þorsteins Bárðarsonar (Tindur), en þeir hjóluðu tveir saman tæplega allan síðari helminginn. Að endingu hafði Ingvar betur og sigraði Þorstein með sjónarmun. Bættu þeir tímann frá því í fyrra um heilar 38 mínútur og var lokatíminn 6:10:18. Þess má reyndar geta að veðurblíðan í Borgarfirði var með eindæmum og varla bærði hár á höfði allan keppnisdaginn, svo vænta mátti bætinga frá fyrra ári.
Í 200 km Pro/Elite kvennaflokki kom Ágústa Edda Björnsdóttir (Tindur) í mark á 7:16:54 og sigraði nokkuð örugglega Kristínu Eddu Sveinsdóttur (HFR). Þess má geta að þetta var fyrsta sinn sem Kristín Edda tekur þátt í gravelmóti.
Önnur helstu úrslit voru þau að í 200 km Masters 18-44 ára sigruðu Natalía Reynisdóttir (Breiðablik) og Gauti Reynisson (Tindur), í 200 km Masters 45+ sigruðu Valborg Hlín Guðlaugsdóttir (Breiðablik) og Páll Snorrason (Tindur).
Í 100 km vegalengdinni var enn einn endaspretturinn í karlaflokki þar sem Tryggvi Kristjánsson sigraði með tveggja sekúndna mun en í kvennaflokki sigraði Björg Hákonardóttir (Breiðablik) örugglega.
Loks voru sigurvegarar í 45 km vegalengdinni þau Sigurbergur Kárason og Edda Vésteinsdóttir.
Önnur helstu úrslit er að finna á https://timataka.net/grefillinn2024/
Að endingu þakkar Hjólreiðadeild Breiðabliks öllum keppendum, sjálfboðaliðum og styrktaraðilum fyrir sinn þátt í að gera góðan Grefil enn betri.