Norðurlandamótið í frjálsum íþróttum fatlaðra fór fram í Bollnas í Svíþjóð dagana 9.-11. ágúst en þangað mættu 12 íslenskir keppendur til leiks og er gaman að segja frá því að í þeim hópi var Blikinn okkar Alexander Már Bjarnþórsson. Alexander Már keppti í 100 og 200 m hlaupi á mótinu og gerði sér lítið fyrir og lenti í 3. sæti í 100 m á tímanum 12,23 sek. sem var bæði nýtt persónulegt met og Íslandsmet í greininni í hópi fatlaðra. Alexander lét ekki þarf við sitja heldur setti jafnframt nýtt persónulegt met og jafnaði Íslandsmetið í 200 m hlaupi fatlaðra þegar hann hljóp á tímanum 25,76 sek. Fyrr á árinu gerði Alexander sér svo lítið fyrir og landaði 1. sæti í 100, 200 og 400 m hlaupi á Íslandsmóti fatlaðra og óhætt að segja að okkar maður hafi átt frábært ár. Við sendum Alexander góðar kveðjur og óskum honum innilega til hamingju með frábæran árangur.