Á sunnudagskvöldið fór fram lokaleikur Íslandsmótsins í fótbolta karlamegin þegar að Víkingur tók á móti Breiðablik fyrir framan uppseldan Fossvogsvöll.
Var þetta í fyrsta sinn í núverandi keppnisfyrirkomulagi sem að lokaleikur mótsins er algjör úrslitaleikur og einungis í þriðja sinn á síðasta aldarfjórðungi.
Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en þar sem að Víkingur var með betri markatölu þá dugði þeim jafntefli á meðan Blikar þurftu að sækja til sigurs.
Það gerðu drengirnir okkar svo sannarlega og gott betur en leiknum lauk með 0-3 sigri Breiðabliks sem standa því uppi sem Íslandsmeistarar í annað sinn á þremur árum.
Draumaendir á tímabili sem innihélt alveg sínar lægðir en lokakaflinn var algjörlega magnaður – taplausir í fjóra mánuði og næstbesta stigasöfnun félagsins frá upphafi er niðurstaðan.
Stemmningin á sunnudaginn var engu lík þrátt fyrir mikinn kulda og var stuðningur okkar 250 áhorfenda engu síðri en þeirra 2250 rauðklæddu.
Ekki skemmdi fyrir að vera með um 700 stuðningsmenn nokkrum metrum fyrir utan völlinn, nánar tiltekið í Yndisgarðinum þar sem búið var að setja upp risaskjá og búa til skemmtilegt “fanzone”.
Þegar að lokaflautið gall ætlaði svo allt um koll að keyra og gátu öryggisverðir ekki annað en fært sig frá þegar að stuðningsfólk Breiðabliks þusti inn á völlinn ásamt öllu fólkinu úr Yndisgarðinum.
Nokkrar flugeldatertur lýstu upp stilltann norðurljósahimininn og svo var sungið fram á rauða nótt – kvöld sem mun aldrei gleymast.
Að vakna sem tvöfaldur Íslandsmeistari þar sem að stelpurnar okkar sóttu auðvitað sinn titil líka á útivelli í úrslitaleik fyrr í mánuðinum er tilfinning sem venst vel en aldrei áður hafa báðir Bestu Deilar skildirnar verið samtímis hjá einu og sama félaginu!