Lokið hefur verið við ráðningu nýrra yfirþjálfara knattspyrnudeildar Breiðabliks en sú leit hefur staðið yfir frá því að Hákon Sverrisson lét af störfum seinni hluta sumars.

Þeir Andri Vilbergsson og Guðjón Gunnarsson verða nýir yfirþjálfarar félagsins og taka til starfa á næstu mánuðum.
Andri Vilbergsson verður yfirþjálfari 2.-4. flokks. Andri hefur langa reynslu af þjálfun bæði hjá Breiðabliki og þar áður hjá Þrótti, en hann hefur verið aðalþjálfari 4. flokks karla undanfarin ár. Hann lætur af störfum í þeim flokki um áramót.
Guðjón Gunnarsson verður yfirþjálfari 5.-8. flokks. Guðjón er einnig reyndur þjálfari en hann hefur undanfarin 12 ár þjálfað mismunandi flokka í Breiðabliki. Guðjón mun í vetur áfram þjálfa í 5. og 4. flokki drengja meðfram nýju stöðunni.

„Það er ánægjulegt að geta sagt frá þessu núna eftir fremur langt ferli undanfarin misseri. Við erum spennt fyrir samstarfinu með Andra og Gauja og bindum miklar vonir við þeirra störf. Þjálfarar, iðkendur og foreldrar munu njóta góðs af því að nú verði tveir yfirþjálfarar í starfi hjá Breiðbliki en stærð og umfang félagsins hefur kallað á það í talsverðan tíma.“ segir Ísleifur Gissurarson deildarstjóri barna- og unglingastarfs.

Við bjóðum Andra og Guðjón velkomna til starfa, áfram Breiðablik!