Þjálfarakvöld Breiðabliks var haldið í fyrsta sinn í gær, mánudaginn 18.nóvember.
Reyndustu þjálfarar gærkvöldsins voru allavega á því að aldrei áður hefði verið haldinn sameiginlegur viðburður fyrir þjálfara í öllum deildum félagsins.
Kvöldið hófst á fyrirlestri frá Önnu Steinsen í Kvan um jákvæð samskipti.
Svo var komið að Soffíu Ámundar, einnig frá Kvan, að fjalla um ofbeldi.
Því næst báru fyrirlesarar upp nokkrar spurningar fyrir þjálfarana til þess að ræða og svara, en þess ber að geta að búið var að raða öllum þjálfurum niður á hringborð með fjölbreytilega þjálfunarbakgrunna í huga.
Að því loknu var gætt sér á á dýrindis veitingum frá Saffran áður en íþróttastjóra félagsins, Arnóri Daða, voru færðar tillögur að fyrirlestrarröð fyrir iðkendur á komandi ári og árum.
Síðast en ekki síst var komið að smá útrás og hún var sko ekki af verri endanum – búið var að setja upp lazertagvöll í Fífunni með uppblásnum hindrunum, tónlist og miklu myrkri.
Eftir flotta takta, stöku öskur og ein miðaldra íþróttameiðsli héldu þjálfararnir heim á leið – örlítið fróðari og vonandi aðeins nánari öðrum þjálfurum félagsins.