Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasamband Íslands fór fram í Laugardalshöllinni í byrjun desember og óhætt að segja að mikil gleði hafi verið meðal frjálsíþróttafólksins sem mætti og stemningin í salnum einstaklega góð. Fjöldi viðurkenninga var veittur til okkar besta og efnilegasta íþróttafólks og að þessu sinni voru fjórir Blikar verðlaunaðir afrek á árinu.

Júlía Kristín Jóhannesdóttir fékk verðlaun fyrir besta spretthlaupafrek ársins og hlaut fyrir það svokallaðan Jónsbikar. Júlía Kristín hlaut 1037 stig fyrir að hlaupa 60 m grindahlaup á 8,56 sek. á MÍ innanhúss í upphafi árs og setti í leiðinni nýtt aldursflokkamet í flokki 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára stúlkna.

Þorleifur Einar Leifsson hlaut titilinn fjölþrautarkarl ársins en hann varð Íslandsmeistari í sjöþraut innanhúss þar sem hann fékk 5182 stig og bætti sig jafnframt um hálfan metra á RIG þegar hann stökk 7,09 m í langstökki. Þorleifur tryggði sér keppnisrétt á NM í þraut í sumar en gat ekki keppt vegna meiðsla.

Arnar Pétursson var valinn langhlaupari ársins utan vallar en Arnar gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í þremur vegalengdum í götuhlaupum í ár þegar hann sigraði 10 km, hálf maraþon og maraþon og varð að auki Íslandsmeistari í Víðavangshlaupum í vor. Arnar keppti enn fremur fyrir Íslands hönd á NM í víðavangshlaupum fyrr í vetur.

Stefán Karl Smárason hlaut sérstök hvatningarverðlaun langhlaupanefndar FRÍ í karlaflokki fyrir afrek ársins en hann sigraði 10 km í Miðnæturhlaupinu á tímanum 33:16 og varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í hálfmaraþoni á tímanum 01:13:30. Stefán keppti einnig fyrir fyrir Íslands hönd á NM í víðavangshlaupi fyrr í vetur.

Við óskum Blikunum okkar innilega til hamingju með viðurkenningarnar og sendum þeim sem og öðrum verðlaunahöfum uppskeruhátíðarinnar okkar bestu kveðjur og hlökkum til að fylgjast með þeim af hliðarlínunni á innanhússtímabilinu.