Kæru félagsmenn Breiðabliks,
Breiðablik fagnar 75 ára afmæli í dag. Þeim framtakssömu einstaklingum sem stofnuðu félagið hefur án efa ekki órað fyrir því hvað þetta litla ungmennafélag í litlu en vaxandi bæjarfélagi gæti vaxið mikið og dafnað á þessum 75 árum. Breiðablik hefur vaxið og dafnað bæði á íþróttasviðinu og sem samfélag. Núna stunda um fjögur þúsund einstaklingar íþróttir undir merkjum Breiðabliks í 13 deildum. Smárinn og Fífan fá um eina milljón heimsókna á hverju ári og þá eru ekki taldar snertingar þeirra sem stunda íþróttir á vegum Breiðabliks í öðrum íþróttamannvirkjum. Við sinnum ungum sem öldnum allt frá íþróttaskóla barna til eldri borgara leikfimi og með öflugt æskulýðs- og afreksstarf þar á milli.
Breiðablik er einstakt félag og sameiningartákn fólks sem kemur saman til að æfa og keppa í íþróttum og njóta félagsskapar. Félagið á ríkan sess í hjörtum fólks sem upplifir gleði í sigrum og sorg í ósigrum. Íþróttafólk félagsins hefur unnið fjölmarga titla bæði hérlendis og erlendis. Við höfum verið sigursæl í nánast öllum íþróttagreinum sem við keppum í og í fremstu röð á flestum sviðum. Þá er félagið orðið vel þekkt víða um heim fyrir þátttöku og góðan árangur okkar fólks í Evrópukeppnum og öðrum alþjóðlegum mótum. Á íþróttahátíð Breiðabliks nú í byrjun janúar verðlaunuðum við okkar besta afreksfólk, og bar þar hæst heimsmeistara- og Evrópumeistaratitlar Sóleyjar Margrétar Jónsdóttur í kraftlyfingum og Íslandsmeistaratitlar í knattspyrnu kvenna og karla svo fátt eitt sé nefnt af frábærum árangri sem okkar fólk hefur náð.
Þrátt fyrir að við fögnum góðum árangri þá er það sem skiptir mestu máli í starfi félagsins að byggja upp góða einstaklinga og bæta samfélagið okkar. Þar tel ég að vel hafi til tekist og vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera Breiðablik að því sem það er í dag. Iðkendur, þjálfarar, sjálfboðaliðar, stuðningsmenn og allir félagsmenn – án ykkar væri þetta ekki mögulegt. Sérstaklega vil ég þakka þeim sem hafa verið með frá upphafi og hafa séð félagið vaxa og þróast í gegnum árin.
Stjórn Breiðabliks hefur ákveðið að skrásetja sögu félagsins og kemur frumkvæði af því frá Andrési Péturssyni sem mun stýra því verkefni ásamt ákaflega vel skipuðum ráðgjafahóp sem nú þegar hefur tekið til starfa. Áformað er að saga Breiðabliks komi út á 80 ára afmæli félagsins árið 2030.
Ákveðið hefur verið að halda upp á 75 ára afmæli Breiðabliks með afmælishátíð í Smáranum þann 10. maí næstkomandi og vonast ég til að sjá ykkur sem flest þar.
Framtíðin er björt fyrir Breiðablik. Við höfum sterkan grunn til að byggja á og ég er fullviss um að við munum halda áfram að vaxa og ná nýjum hæðum. Við skulum halda áfram að vinna saman, styðja hvert annað og hjálpast að við að ná árangri innan sem utan vallar.
Til hamingju með daginn kæru Blikar,
Með Blikakveðju,
Ásgeir Baldurs
Formaður Breiðabliks