Meistaramót Íslands 15-22 ára innanhúss fór fram í Laugardalshöll 15.-16. febrúar en 20 félög um land allt áttu rúmlega 260 fulltrúa á mótinu og taldi Blikahópurinn 19 manns. Árangurinn lét ekki á sér standa og alls voru sett 10 mótsmet og rétt tæplega 350 persónulegar bætingar en af þeim átti okkar hópur rúmlega 30 persónuleg met.
Blikarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu til 7 gullverðlauna, 4 silfurverðlauna og 4 bronsverðlauna og óhætt að segja að við séum í skýjunum með frábæran árangur okkar fólks. Stemningin í hópnum var með eindæmum góð og gaman að sjá íþróttafólkið okkar uppskera eftir æfingar vetrarins.
Um leið og við óskum verðlaunahöfum helgarinnar innilega til hamingju viljum við hrósa öllum Blikunum okkar fyrir frábært mót, persónuleg met og keppnisskap upp á tíu.
Áfram Breiðablik – alla daga – alltaf!
Heildarúrslit mótsins og skiptingu verðlauna má sjá á vefsíðunni mot.fri.is