Bikarkeppnir FRÍ eru án efa einn af hápunktum innanhússtímabilsins í frjálsíþróttum og að þessu sinni fóru bikarkeppnir fullorðinna og 15 ára og yngri fram í Kaplakrika laugardaginn 1. mars sl. 10 lið voru skráð til leiks í Bikarkeppni FRÍ og 11 lið í Bikarkeppni 15 ára og yngri. Fyrir þau sem ekki þekkja til eru bikarkeppnir ólíkar öðrum keppnum að því leytinu að í hverri grein er aðeins einn keppandi frá hverju liði og liðin safna þannig stigum fyrir liðið í stað þess að keppt sé til verðlauna í stökum greinum. Blikarnir okkar stóðu sig með eindæmum vel í báðum keppnum og var mikið um persónuleg met hjá báðum liðum eða 9 Pb. hjá 15 ára og yngri sem endaðu í 3. sæti í heildarstigakeppninni og 11 Pb. hjá þeim eldri sem enduðu í 5. sæti.
Frjálsíþróttadeild Breiðabliks var framkvæmdaraðili beggja keppna þetta árið og viljum við nota tækifærið til að þakka þeim stóra hópi sjálfboðaliða sem stóð vaktina með okkur. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi tíma sinn og erum við einstaklega þakklát því dýrmæta og dásamlega baklandi sem deildin okkar býr að. Án ykkar hefði dæmið aldrei gengið upp!
Takk, takk, takk fyrir okkur. 💚