Blikarnir okkar halda áfram að brillera og nú síðast á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum. Okkar maður Þorleifur Einar Leifsson gerði sér lítið fyrir og sigraði sjöþraut karla með 5182 stigum og bætti um leið persónulegt met í þrautinni sem var 4667 stig frá MÍ í fjölþrautum í fyrra. Þorleifur var í hörku keppni við Ísak Óla Traustason, núverandi Íslandsmeistara úr UMSS, en hann laut í lægra haldi í þetta sinn og endaði í öðru sæti með 5156 stig. Þriðji var Reynir Zoëga úr ÍR með 3904 stig.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir sigraði fimmtarþraut 18-19 ára stúlkna en þar var mikil spenna í sterkum flokki og réðust úrslitin ekki fyrr en í lokagreininni. Júlía Kristín hlaut 3643 stig sem tryggði henni gullið og fyrsta sætið en fast á hæla hennar komu Brynja Rós Brynjarsdóttir (ÍR) með 3626 stig í og María Helga Högnadóttir (FH) með 3465 stig.
Í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri áttum við tvo Blika á palli en Samúel Örn Sigurvinsson hlaut 2695 stig sem tryggði honum sigur í þrautinni og Kristján Óli Gustavsson landaði þriðja sæti með 2111 stig. Í öðru sæti, á milli Blikanna, var svo Hinrik Freyr Sigurbjörnsson frá HSÞ, sem 2446 stig.
Við óskum Blikunum okkar innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast með komandi verkefnum!